Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir ástandið í Rússlandi ekki ósvipað og var hér á Íslandi í október 2008. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu.

Þar kemur fram að efnahagsástandið í Rússlandi hafi haft áhrif á útflutning fyrirtækisins á sjávarafurðum til landsins. Stórir íslenskir fiskútflytjendur hafa stöðvað útflutning sinn til Rússlands í kjölfar falls rúblunnar, en fyrirtæki þar skulda íslenskum útflytjendum á bilinu þrjá til fimm milljarða króna.

„Við erum, öll þessi fyrirtæki, í þessari stöðu og þetta er erfitt. En eins og ég segi þá erum við með flutningaskip sem kemur til Rússlands í næstu viku. Það er hins vegar minna magn en áætlanir gera ráð fyrir og þetta gengur allt hægar,“ segir Þorsteinn Már í samtali við Fréttablaðið. Hann segir markaðinn hins vegar gríðarlega mikilvægan fyrir Samherja og fyrirtækið eigi töluvert af fiskbirgðum sem selja á inn á hann.