Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (ANR) telur ekki að fyrirhugaða markaðsátakið Íslenskt – gjörið svo vel sé í andstöðu við ákvæði EES-samningsins. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn blaðsins.

Í apríl var skrifað undir samkomulag um verkefnið sem ætlað er hvetja landsmenn til viðskipta við innlend fyrirtæki. Eftirlitsstofnun EFTA hefur í tvígang gert athugasemdir við áþekkar herferðir, annars vegar árið 2005 við Kaupum íslenskt og allir vinna og hins vegar árið 2015 við norsku herferðina Nyt Norge. Taldi ESA að þær brytu gegn ákvæði EES-samningsins sem bannar mismunun.

Réttlætingarástæður geta hins vegar verið fyrir slíkri mismunun sem ANR telur eiga við nú. „Með vísan til þess að kynningarátakið er hluti af almennum efnahagsaðgerðum stjórnvalda gegn heimsfaraldri Covid-19 […] er litið svo á að kynningarátakið gangi ekki gegn [EES-samningnum],“ segir í svari ANR.