Lausafjárþurrðin á fjármálamörkuðum líkist einna helst bankaáhlaupum nítjándu aldar nema hvað að bankana vantar, að mati Axel Weber, seðlabankastjóra þýska seðlabankans sem er jafnframt talinn til helstu áhrifamanna í Seðlabanka Evrópu. Weber lét ummælin falla um helgina á árlegri ráðstefnu bandaríska seðlabankans um horfur í efnahagsmálum í smábænum Jackson Hole í Wyoming í Bandaríkjunun. Á ráðstefnunni komu einnig fram hugmyndir um að Taylor-reglan ætti ekki ein að ráða vaxtaákvörðunum í Bandaríkjunum.

Weber segir að ástandið sem hefur skapast vegna vandamála með undirmálslán á bandaríska fasteignamarkaðnum (e. sub-prime mortgage) hafi öll einkenni þeirrar atburðarrásar sem hefst þegar að eigendur innlána vilja endurheimta fé sitt örar en lánastofnanir geta staðið undir. Það að eigendur innlána missi trú á getu einstakra banka til þess að geta staðið undir skuldbindingum getur haft víðtæk áhrif og smitað útfrá sér þar sem að hluti innlána sé bundinn í öðrum fjárfestingum.

Þetta er í fyrsta skipti sem þungavigtarmaður í röðum seðlabankastjóra tjáir sig opinberlega um ástandið á fjármálamörkuðum um þessar mundir með viðlíka hætti. Financial Times fullyrðir þó að áhrifamenn innan bandaríska seðlabankans séu sammála greiningu Weber, sem segir að fjármálamarkaðir hafi brugðist við vandræðaganginum á bandaríska undirmálslánamarkaðnum af fáti og að viðbrögðin séu í engu samræmi við eðli vandans. Weber telur engin vandamál vegna skorts á greiðslugetu vera til staðar og rekur alvarleika ástandsins fyrst og fremst til lausafjárþurrðarinnar á fjármálamörkuðum. Hann segir seðlabanka standa frammi fyrir þeim vanda að þeir geti ekki auki aukið aðgengi fyrirtækja að lausafé með beinum hætti og verði því að bregðast við ástandinu með því að aðstoða fjármálastofnanir.

Vandræði í "skuggabankakerfinu"
Í ræðu sinni á ráðstefnunni sagði Weber að eini munurinn á hefðbundnu bankaáhlaupi og því ástandi sem ríkir nú á fjármálamörkuðum fælist í því að rót vandans mætti rekja til fjármálagerninga sem tengjast markaði með skuldabréf fyrirtækja í stað hefðbundinnar inn- og útlánastarfsemi og með vaxandi áhættufælni á mörkuðum hafi bankar neyðst að færa áhættusamar eignir til bókar og um leið gengið á laust fé. Að mati Webers er þetta ástæðan fyrir lausafjárþurrðinni á mörkuðum að undanförnu. Aðrir ráðstefnugestir tóku undir skoðanir þýska seðlabankastjórans. Paul McCulley, sem starfar hjá fjárfestingafyrirtækinu Pimco sem meðal annars rekur stærsta skuldabréfasjóð heims, líkti ástandinu við áhlaup á "skuggabankakerfi heimsins." Hann segir að bankar þurfi nú að færa til bókar eignir úr "skuggabankakerfinu" að verðmæti 1.300 milljarða Bandaríkjadala. Meginmálið nú sé með hvaða hætti það verði gert og á hvaða verði.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.