„Við þurfum skjól af alþjóðasamfélaginu, rétt eins og þegar auðmenn Sturlungaaldar, árið 1262, kunnu sér ekki forráð og alþingi hið forna leitaði á náðir Noregskonungs til að ná lögum og rétti í landinu.“

Þannig skrifar Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins (SGS) í áramótakveðjur á vef sambandsins en árið 1262 var Gamli sáttmáli undirritaður.

Þá segir Skúli einnig að SGS hafi á fyrsta degi þessa árs varað við þeirri ógn sem stafaði af „markaðssamfélagi nýkapítalismans þar sem samfélagið sé að þróast frá samfélagslegum forsendum  í nýkapítalískt markaðssamfélag á forsendum fjárfesta og auðmanna.“

Skúli segir að sú ógn sem blasti við fyrir réttu ári sé nú komin fram og afleiðingarnar eigi eftir að verða enn sársaukafyllri.

Þá sakar Skúli „kvótagreifa sjávarútvegsins“ um að vilja viðhalda sérhagsmunum sínum utan við lög og rétt auk þess sem í pistli hans kemur fram að nýtt fólk þurfi í íslensk stjórnmál sem „ekki er beintengt við peningaöflin,“ eins og það er orðað í pistli Skúla.

Þá segir hann einnig í pistli sínum að enginn friður verði í íslensku samfélagi fyrr en hér hafi verið mynduð ríkisstjórn sem endurheimt hafi umboð sitt og njóti trausts til að takast á við vandann.

„Kosningar eru á dagskrá hvort sem ráðherrum líkar það betur eða verr,“ segir Skúli í pistli sínum.

Sjá nánar vef SGS.