*

fimmtudagur, 25. febrúar 2021
Erlent 13. febrúar 2021 17:02

Ástarapp á flugi fyrir Valentínusardaginn

Virði stefnumótasmáforritsins Bumble hefur nærri tvöfaldast frá skráningu félagsins á markað á fimmtudag.

Ritstjórn
EPA

Virði stefnumótasmáforritsins Bumble hefur nærri tvöfaldast frá skráningu félagsins á markað, en fyrsti viðskiptadagur hlutabréfa félagsins á markaði var á sl. fimmtudag. Markaðsvirði félagsins nemur nú 15,7 milljörðum dala. Reuters greinir frá.

Er hlutabréf félagsins voru tekin til viðskipta í fyrsta sinn, í kjölfar frumútboðs, nam gengi hlutabréfa þess 43 dölum á hlut. Gengið hefur síðan verið á miklu flugi og við lokun markaða í gær var gengi bréfa Bumble á hlut komið upp í 75,5 dali.

Sjá einnig: Meta stefnumótaforrit á 6 milljarða dala

Hlutur Whitney Wolfe Herd, stofnanda stefnumótasmáforritsins, er því nú metinn á um 2 milljarða dala. Hún á 21,5 milljónir hluta í félaginu, eða sem nemur um 11,6% hlut.

Með skráningunni braut Wolfe Herd blað í sögunni þar sem að hún varð yngsti kvenkynsstjórnandi til að leiða skráð félag í Bandaríkjunum. Hún hringdi inn fyrstu viðskipti með bréf Bumble við opnun markaða á fimmtudag frá skrifstofum fyrirtækisins í Austin, Texas. Naut hún dyggs stuðnings frá eins árs gömlum syni sínum.

Bumble sker sig úr öðrum stefnumótarforritum að því leyti að konur hafa frumkvæði að samskiptum við karlkynsnotendur. Karlar geta því ekki átt frumkvæði að samræðum við kvenkynsnotendur forritsins.