Einn af síðustu draugum íslenska efnahagshrunsins var endanlega kveðinn niður í síðasta mánuði er ríkissjóður greiddi að fullu upp hið svokallaða Seðlabankabréf, 270 milljarða króna skuldabréf sem íslenska ríkið gaf út í árslok 2008 í skiptum fyrir veðlán Seðlabankans í hinum alræmdu ástarbréfum föllnu bankanna.

Tilgangur skuldabréfsins var að koma í veg fyrir að eigið fé Seðlabankans yrði neikvætt í kjölfar þess að veð hans gegn hundraða milljarða lánum til bankanna misstu stóran hluta virðis síns í kjölfar hrunsins. Lán Seðlabankans til bankanna í formi ástarbréfanna voru afar umdeild og skuldabréf ríkissjóðs til bjargar bankanum vakti einnig umtal. En hvernig byrjaði þessi „ástarsaga“?

Peningaprentunin framseld

Íslensku bankarnir nutu góðs af nær ótakmörkuðu lánsfé á erlendum fjármálamörkuðum á fyrstu árum 21. aldarinnar og margfölduðust að stærð og umfangi. Frá og með árinu 2006 fór að verða erfiðara fyrir bankana að sækja erlent lánsfé og í ágúst 2007 lokaðist algerlega á alþjóðlega fjármálamarkaði, bæði vegna erfiðra ytri aðstæðna og vegna þess að efasemdir ríktu um greiðsluhæfi íslensku bankanna. Þeir voru orðnir ansi skuldsettir á þessum tíma og vantaði sárlega lausafé. Bankarnir fóru í auknum mæli að leita til Seðlabankans, auk Seðlabanka Evrópu, í ljósi þess að erlendir aðilar vildu ekki lána þeim.

Seðlabankinn útvegaði bönkunum nær ótakmarkað lausafé gegn veðtryggingum. Bankarnir beittu að vísu ákveðnum krókaleiðum til að komast yfir sem mest lausafé frá Seðlabankanum. Þeir tóku m.a. lán hjá minni fjármálafyrirtækjum sem sóttu síðan fé til Seðlabankans gegn ótryggðum bréfum. Bankarnir tóku einnig sambærileg lán hver hjá öðrum og sóttu fé til Seðlabankans. Þetta gerðu þeir því þeir máttu ekki nota eigin bréf sem veð.

Í skýrslu dr. Ásgeirs Jónssonar og dr. Hersis Sigurgeirssonar frá því í fyrra um kostnað og ábata íslenska ríkisins af efnahagshruninu segir að „með þessum viðskiptum hafi Seðlabankinn afhent bönkunum peningaprentunarvald sitt og bankarnir höfðu í raun aðgang að ótakmörkuðu magni af innstæðum í Seðlabanka“.

Hörð gagnrýni frá Ríkisendurskoðun

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar með ríkisreikningi ársins 2008 er Seðlabankinn harðlega gagnrýndur fyrir að bregðast ekki við þessum „leik“ bankanna með því að herða kröfur sínar um veðtryggingar fyrr en í ágúst 2008, einungis tveimur mánuðum fyrir hrun bankanna. Að mati Ríkisendurskoðunar hefðu slíkar aðgerðir getað dregið úr því mikla tjóni sem ríkissjóður og Seðlabankinn urðu fyrir við fall bankanna.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur blaðsins geta nálgast blaðið með því að smella á Tölublöð á forsíðu.