Kvótafrumvarpið felur í sér fjármagnsflutninga frá landsbyggðinni til Reykjavíkur að sögn Ásthildar Sturludóttur, bæjarstjóra Vesturbyggðar, en Ásthildur var einn ræðumanna á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga um kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar.

Ásthildur sagði að úttekt, sem unnin var fyrir sveitarfélagið, sýni fram á að skattgreiðslur á sjávarútvegsfyrirtæki í Vesturbyggð myndu aukast um 200 milljónir ef frumvarpið yrði að lögum. Fyrirtækin muni eiga erfitt með að standa undir þessu án þess að segja upp fólki og þá muni þetta hafa áhrif á afleidd störf í sveitarfélaginu í fyrirtækjum sem þjónusti útgerðarfyrirtækin. Uppsagnirnar muni svo leiða til lægra útsvars til sveitarfélagsins.

Þá muni verri staða útgerðarfyrirtækja hafa neikvæð áhrif á hafnarsjóð sveitarfélagsins og þar með á möguleika til að þjónusta aðrar atvinnugreinar eins og fiskeldi og þörungavinnslu.

„Skattpíning á grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar felur ekkert annað í sér en hrun á landsbyggðinni,“ segir Ásthildur og spáir hún fólksflótta frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins ef frumvarpið, sem hún kallar verstu byggðaaðgerð sögunnar, verður að lögum.