Upphrópanirnar, gífuryrðin og öfugmælin sem höfð eru uppi í umræðunni um Icesave-samkomulagið eru með miklum ólíkindum.

Þetta skrifar Hrannar B. Arnarson, aðstoðarmaður forsætisráðherra á bloggsíðu sína í dag en þar fjallar hann um áhrif Icesave samkomulagsins á lánshæfismat íslenska ríkisins. Hrannar segir á vef sínum að með Icesave samkomulaginu sé mikilli óvissu eytt hér á landi.

„Langtímahorfur fyrir Ísland munu [...] skýrast mjög á næstunni. Það ætti að styrkja trú manna, bæði hér innanlands og utan, á íslensku efnahagslífi og m.a. skila sér í betra lánshæfismati þegar fram í sækir,“ segir Hrannar á vef sínum.

„Er ástandið í þjóðfélaginu virkilega orðið þannig að það sé hægt að segja hvað sem er án þess að vera krafinn raka fyrir stóryrðunum?,“ spyr Hrannar.

„Hvernig í ósköpunum geta menn t.d. fundið það út að lánshæfismati Íslands sé stefnt í voða með gerð samkomulagsins um Icesave? Sömu menn leggja reyndar sumir til að Ísland lýsi því yfir að það muni greiða skuldir sínar, en þar með yrði lánshæfismat Íslands að sjáfsögðu [sic!] ekkert.“

Hrannar segir að allt tal um að samkomulagið um IceSave hafi neikvæð áhrif á lánshæfismat Íslands virki á sig eins og öfugmælavísa af verstu sort, ekki síst þegar slíkt tal komi „frá einstaklingum sem bera ekki meiri umhyggju fyrir lánshæfismati Íslands en svo, að þeir vilja að það lýsi því yfir að það muni ekki greiða skuldir sínar,“ segir Hrannar.

„Slík yfirlýsing myndi á augabraði [sic!] tryggja að lánshæfismat Íslands yðri [sic!] að engu!“

Sjá nánar á vef Hrannars.