Fáum duldist að þegar Dímitri Medvedev, forseti Rússlands, hótaði því á miðvikudag í stefnuræðu sinni í Dúmunni að skammdrægum eldflaugum yrði komið fyrir í Kalíningrad ef Bandaríkjamenn kæmu fyrir gagneldflaugakerfi í Póllandi og Tékklandi, þá var hann að beina orðum sínum til Baracks Obama, næsta forseta Bandaríkjanna.

Þrátt fyrir að stjórnvöld í Washington hafi ítrekað að eldflaugavarnarkerfinu sé beint gegn svokölluðum útlagaríkjum þá eru áformin eitur í beinum Kremlarbænda. Kalíningrad er landsvæði undir yfirráðum Rússa sem er innlukt í Evrópusambandið, nánar tiltekið á milli Póllands og Litháen. Ljóst er að ákvörðun um að staðsetja skammdrægar rússneskar flaugar á svæðinu myndi kynda enn frekar undir þá spennu sem hefur verið í samskiptum rússneskra stjórnvalda við Vesturlönd á undanförnum árum.

Táknræn hótun

Vissulega er það svo að Kalíningrad er ekki vopnalaust svæði. Viðbúnaður rússneska hersins á svæðinu er mikill – reyndar svo mikill að Kimberley Marten, sérfræðingur í rússneskri utanríkisstefnu við Columbia-háskóla, fullyrðir að þar séu nú þegar vígvallarkjarnavopn (e. tactical nuclear weapons) á svæðinu. Þetta þýðir að hótun Medvedev er fyrst og fremst táknræn þar sem aðgerðin myndi vart verða til þess að varnarjafnvægið á svæðinu skekkist. Þrátt fyrir það myndi staðsetning flauganna vart draga úr þeirri ógn sem fyrrum ráðstjórnarríkin, sem nú eru í Evrópusambandinu (ESB), telja sig stafa af auknum umsvifum Rússa.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .