Í gildi er viljayfirlýsing Alcoa við íslenska ríkið sem rennur út um næstu mánaðamót um að reisa nýtt 250.000 tonna á álver á Bakka við Húsavík. Kevin J. Anton, einn af aðstoðarforstjórum Alcoa og yfirmaður markaðsmála, segir í Viðskiptablaðinu í dag að Alcoa hafi lagt mikla fjármuni í undirbúning og rannsóknir vegna þessa verkefnis og vinni nú að endurnýjun á viljayfirlýsingu.

Mikil andstaða er þó innan ríkisstjórnarflokkanna við frekari uppbyggingu áliðnaðar á Íslandi og hefur valdið óvissu um framhald þessa verkefnis.

„Við erum í viðræðum um að framlengja viljayfirlýsinguna. Við höfum lagt töluvert mikla fjármuni í þetta verkefni og gerðum það í fullri alvöru. Ef við berum þetta verkefni saman við önnur verkefni Alcoa um allan heim sem eru á sama vinnslustigi, þá veit ég ekki um neitt sem við höfum lagt til meira fjármagn og vinnuafl. Við erum því ekki hrifnir af því að hverfa frá þessu dæmi. Við teljum að þetta geti orðið gott verkefni þegar fjármögnunaraðstæður og markaðaaðstæður lagast. Við viljum því fá að taka áfram þátt í þessu verkefni," segir Kevin J. Anton.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag