*

þriðjudagur, 30. nóvember 2021
Innlent 7. september 2020 18:29

Ástráður, Jón og Ragnheiður hæfust

Þrír dómarar teljast hæfastir að mati dómnefndar til að hljóta skipun í Landsrétt. Tvær stöður eru lausar.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara telur að landsréttardómarinn Ragnheiður Bragadóttir og héraðsdómararnir Jón Höskuldsson og Ástráður Haraldsson séu hæfust fimm umsækjenda sem sóttust eftir tveimur lausum stöðum við Landsrétt. Ekki er gert upp á milli þeirra þriggja.

Hinir tveir umsækjendurnir voru lögmennirnir Jóhannes Rúnar Jóhannsson og Stefán Geir Þórisson. Jóhannes Rúnar, var líkt og Ástráður og Jón Höskuldsson, í hópi þeirra fjögurra umsækjenda sem nefndin taldi hæfasta þegar Landsréttur var mannaður hið fyrsta sinn. Þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, hrókeraði til á þeim lista og tók meðal annars fyrrnefnda Ragnheiði Bragadóttur inn. Hún hefur ekki gengt dómstörfum frá því að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu lá fyrir.

Sjá einnig: Mun dragast að fullmanna Hæstarétt

Tvö hinna fjögurra, þau Arnfríður Einarsdóttir og Ásmundur Helgason, hafa hlotið skipun í Landsrétt á nýjan leik. Síðasti dómarinn, Jón Finnbjörnsson, hefur ekki sótt um að nýju og ekki sinnt dómstörfum um nokkurt skeið.

Upphaflega sóttu sjö um stöðurnar tvær en héraðsdómararnir Hildur Briem og Kjartan Bjarni Björgvinsson drógu umsóknir sínar til baka áður en mat nefndarinnar fór fram.

Matið nú hefur verið talsvert rætt lögfræðinga á milli, þá helst sökum tengsla formanns nefndarinnar, Eiríks Tómassonar, við Jóhannes Rúnar. Formaðurinn taldi sig hæfan til meðferðar málsins og ákvað að víkja ekki sæti í málinu. Það sem virðist hafa haft úrslitaáhrif við mat nefndarinnar nú var mat af dómarareynslu og skoruðu Ástráður, Jón og Ragnheiður þar hæst.