Breska flugfélagið Astraeus, sem Northen Travel Holding á 51% hlut í, hefur leigt sína fjórðu Boeing 757 og ræður nú yfir ellefu flugvélum. Félagið stefnir á mikinn vöxt á næsta ári eða tveimur og að flotinn telji þá tæpar 20 flugvélar, að sögn Matthíasar Imsland, stjórnarformanns Northen Travel Holding. Fyrsta verkefni nýju flugvélarinnar er að flytja farþega til og frá Íslandi yfir sumartímann.

Töluverð tiltekt hefur átt sér stað innan félagsins, að sögn Matthíasar; lélegum samningum var sagt upp og eldri flugvélum skilað. Það hafði þau áhrif að flugvélum í eigu félagsins fækkaði en nú hefur aftur verið blásið til sóknar. "Þetta er orðið virkilega spennandi félag," segir Matthías. "Það eru fleiri spennandi verkefni [framundan]," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Aðspurður um hvernig verði staðið að stækkun félagsins segir hann að stjórnendateymið sé mjög hæft og það sé að finna ný verkefni. Ennfremur hefur Northen Travel Holding mikil tengsl í þessum geira. "Menn treysta félaginu mjög vel og vilja vera í samstarfi við Northen Travel Holding og Astraeus," segir Matthías.
Flugfélagið flýgur með um 830 þúsund farþega á ári og hjá því starfa um 300 manns. Northen Travel Holding á 51% í Astraeus, Aberdeen Asset Management á 24,5% og stjórnendur 24,5%. Northen Travel Holding er í eigu Fons, FL Group og Sunds.