Kröfur í þrotabú Astraeus Limited sem var í eigu Fengs, eignarhaldsfélags Pálma Haraldssonar, nema rúmlega 26 milljónum punda, jafnvirði rúmlega 5 milljörðum króna. Eigur félagsins við gjaldþrot þess 21. nóvember síðastliðinn eru metnar á um 937 þúsund pund, eða um 183 milljónir króna.

Þetta kemur fram í skýrslu bústjóra sem var send kröfuhöfum 13. janúar síðastliðinn. Viðskiptablaðið er með skýrsluna undir höndum.

Talið er að greitt verði að fullu til forgangskröfuhafa. Þær kröfur eru aðeins brot af heild, eða um 279 þúsund pund. Það eru um 55 milljónir króna. Ef forgangskröfur, almennar kröfur og hlutafé í félaginu eru dregin frá eigum nemur tap kröfuhafa og fyrrum eiganda samtals um 44 milljónum punda, jafnvirði rúmlega 8,5 milljörðum króna.

Upphæð umfram forgangskröfur hefur þegar verið endurheimt af bústjórum, sem voru skipaðir í kjölfar gjaldþrots Astraeus 21. nóvember síðastliðinn. Leitað var til breska félagsins Zolfo Cooper og eru bústjórarnir þrír. Í skýrslunni fara bústjórarnir yfir stöðu félagsins og framgang mála fram til 6. janúar sl.

Kröfuhafar og skuldunautar félagsins eru ríflega 600 talsins. Þar af eru tíu félög skráð á Íslandi, meðal annars Iceland Express, Fengur og Airport Associates.

Nánar er fjallað um gjaldþrot Astraeus og kröfur í búið í ítarlegri fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.