Ástralir munu bjóða upp Bitcoin að andvirði 16 milljóna ástralskra dala, eða um 1,4 milljarða króna, í næsta mánuði.

Bankar og aðrir milliliðir óþarfir

Rafræni gjaldmiðillinn Bitcoin sem hóf göngu sína árið 2009 byggir á blockchain tækni sem tryggir traust í viðskiptum með gjaldmiðilinn manna á milli án þess að þriðja aðila, eins og banka þurfi til. Eftirspurn eftir gjaldmiðlinum er nú í hæstu hæðum en boðin verða upp 24.518 bitcoin einingar sem gerð voru upptæk eftir glæparannsókn.

Líklega er um að ræða einingar sem Ástrali sem var dæmdur fyrir fíkniefnasmygl árið 2014 átti í fórum sínum. Uppboðshaldarinn verður Ernst and Young, en Adam Nikitins fulltrúi þeirra sagði að verslun með bitcoin hefði fjórfaldast síðan 2012.

Tryggir nafnleynd

Árið 2014 og 2015 buðu bandarísk yfirvöld upp um 170.000 bitcoin einingar sem gerð voru upptæk eftir lokun Silkivegarins (Silk Road) sem var svartamarkaðsvefsíða þar sem allt milli himins og jarðar var til sölu en viðskiptin fóru fram með bitcoin til að tryggja nafnleynd.