Magrir tímar eru framundan í námurekstri á komandi mánuðum að því er segir í frétt The Australian Business. Námufyrirtækin fara sér rólega nú í ársbyrjun eftir að hafa sent flesta sína starfsmenn í langt jólafrí, enda miklar lækkanir á hráefnismörkuðum.

Búist er við að verð á kopar haldist lágt út þetta ár og samkvæmt nýjustu tölum á hrávörumarkaði LME í London heldur verð á kopar, nickel og áli áfram að lækka.

Sem dæmi um versnandi ástand hefur Aditya Birla Minerals koparnámufyrirtækið í Perth tilkynnt um samdráttaraðgerðir. Hefur það m.a. sagt upp verktaka sem sér um mölun á kopargrýti í Nifty Oxide námunni í Pilbara í Vestur-Ástralíu. Þá hefur fyrirtækið ráðið til sín ráðagjafafyrirtæki til að skipuleggja niðurskurð á starfsmannafjölda. Eins hefur starfsemi í neðanjarðarnámu í Gordon fjalli í Queensland verið sett í lágmark og þar er nú einungis unnið við viðhald og eftirlit.

Hefur Aditya tilkynnt áströlskum fjármálayfirvöldum að það hyggist skera niður kostnað um 4-5 milljónir dollara á mánuði vegna verðfalls á kopar á heimsmarkaði. Þá segir The Australian Business að fjöldi annarra námufyrirtækja sé nú að endurmeta stöðu sína.

Sérfræðingar ANZ bankans á hrávörumarkaði búast við frekari niðurskurðartilkynningum á næstunni í kjölfar ákvörðunar Alcoa um að segja upp 15.000 starfsmönnum og draga úr sinni framleiðslu.