Sænsk-breska fyrirtækið AstraZeneca, sem þróar bóluefni við Covid 19 sjúkdómnum í samstarfi við Oxford háskóla, hefur viðurkennt að framleiðslugalli gæti dregið niðurstöður um árangur bóluefnisins í efa.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum sýndu niðurstöður tilrauna félagsins allt að 90% árangur í að mynda ónæmisviðbrögð, en samanlagt hefði árangurinn verið 70% ef tekið var tillit til mismunandi skammtastærða.

Gagnrýnendur hafa nú bent á að 70% talan byggi á því að ákveðnar skammtastærðir (minni fyrst og síðan stærri) hefðu náð 90% árangri, en aðrar, það er jafnstór skammtur í fyrra og seinna skipti bólusetningar, hefði farið niður í 62% árangur.

„Þeir hafa tekið tvær tilraunir með misstórum skömmtum og blönduðu niðurstöðunum saman í eina tölu sem ekki rétt fyrir hvora skammtastærðina,“ hefur NBC News eftir David Salisbury sem starfar hjá alþjóðaheilbrigðisverkefni Catham House hugveitunnar.

Nú hefur AstraZeneca viðurkennt að framleiðslugalli hafi valdið því að skammturinn hafi verið minni í sumum tilfellum, sem þurfti að leiðrétta fyrir eftir á. Klínískar tilraunir á bóluefnum byggja þó alla jafna á því að allt sé útlistað fyrirfram og því gæti þetta dregið niðurstöður hennar í efa.

Jafnframt benda sérfræðingar á að hversu lítill hópurinn var sem fékk minni skammtinn, það er 2.741, sem fylgdi svo stærri skammtur geti einnig ruglað niðurstöðuna. Jafnframt hafi enginn þeirra verið yfir 55 ára aldri, en yngri hópar fá jafnframt sterkari ofnæmisviðbrögð en þeir sem eldri eru.