Stjórn breska lyfjarisans AstraZeneca hafnaði í dag yfirtökutilboði frá Pfizer. Engu skipti þótt að stjórn Pfizer hafi hækkað tilboðið um 7% og það hljóðað upp á 63 milljarða punda eða sem svarar til 11.800 milljarða íslenskra króna. Í umfjöllun bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal segir að stjórn AstraZeneca telji tilboðið of lágt. Nú sé þrennt í stöðunni: Annað hvort að hækka tilboðið, ráðast í óvinveitta yfirtöku sem þýðir að hluthöfum AstraZeneca er gert tilboð í hluti þeirra, eða hætta við yfirtökuna.

Ef af samruna lyfjafyrirtækjanna yrði verður til eitt stærsta lyfjafyrirtæki heims.

Í Wall Street Journal segir ennfremur að stjórn Pfizer hafi undirbúið stóra yfirtöku í langan tíma og í þaula. Fyrirtækið eigi í sjóðum bæði innan og utan Bandaríkjanna 49 milljarða dala í reiðufé, peningur sem verði nýtt til kaupanna.