Breski flugrekandinn Astraeus, sem sinnt hefur áætlunarflugi fyrir Iceland Express, getur ekki flogið á milli Keflavíkur og New York, nema með heimild flugmálayfirvalda, fyrr en að aðild Íslands að loftferðasamningi ESB og Bandaríkjanna (Open Skies samningur).

Þetta kemur fram í erindi sem Flugmálastjórn hefur sent íslenskum flugrekendum þar sem fram kemur að Astraeus hefur óskað eftir heimild til að fljúga fyrrnefndan legg frá júní til september 2010.

Til stendur að Ísland, ásamt Noregi, gerist aðili að Open Skies samningnum. Með aðild Íslands að samningnum munu flugrekendur frá ESB geta flogið beint frá Íslandi til Bandaríkjanna og íslenskir flugrekendur flogið frá ESB ríkjum beint til Bandaríkjanna án sérstakrar heimildar.

Í erindi flugmálastjórnar kemur þó fram að þar til aðild Ísland að Open Skies samningnum verður að raunveruleika getur Astraeus ekki flogið framangreint flug nema með heimild flugmálayfirvalda.

Þá kemur fram að Astraeus hefur lagt öll tilskilin gögn fyrir Flugmálastjórn. Jafnframt hefur Astraeus, að beiðni Flugmálastjórnar, lagt fram yfirlýsingu frá samgöngudeild breska ríkisins (Department for Transport) þess efnis að bresk yfirvöld munu veita íslenskum flugrekendum sambærileg réttindi og Flugmálastjórn veitir Astraeus á grundvelli gagnkvæmni og með vísan til Open Skies samningsins.

Til þess að fljúga áætlunarflug til Bandaríkjanna þarf tvenns konar leyfi. Annars vegar þarf leyfi íslenskra flugmálayfirvalda, sem aðeins eru veitt íslenskum flugfélögum, en hins vegar þarf leyfi frá samgönguyfirvöldum í Bandaríkjunum  (Department of transportation) til að bæði fljúga til Bandaríkjanna og eins til að selja flug út úr landinu.

Þannig getur flugrekandi, með íslenskt flugrekendaskírteini, sem hlotið hefur tilnefningu íslenskra stjórnvalda flogið með farþega og frakt til Bandaríkjanna frá Íslandi og öfugt. Hið sama gildir fyrir bandaríska flugrekendur. Iceland Express er í þeim skilningi ekki flugfélag, þ.e. félagið hefur ekki flugrekstrarleyfi og er því ekki flugrekandi, en hingað til hefur breska flugfélagið Astreus séð um flugrekstur félagsins.

Um þetta var fjallað í Viðskiptablaðinu um miðjan október. Þá sagði Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express í samtali við Viðskiptablaðið að félagið hafi öll þau leyfi sem til þarf til að hefja áætlunarflug til Bandaríkjanna. Astraeus hefði leyfi til að fljúga frá hvaða áfangastað sem er innan EES svæðisins og til hvaða áfangastaðar sem er í Bandaríkjunum.

Því til staðfestingar fékk Viðskiptablaðið afrit af flugrekstrarleyfi Astraeus, sem heimilt er að nota vörumerkið Iceland Express. Þá segir Matthías að leyfinu fylgi réttindi til að selja miða frá Bandaríkjunum.

Heimildir Viðskiptablaðsins hermdu þá að þrátt fyrir að Astreus hafi leyfi til að fljúga frá Evrópu til Bandaríkjanna gildi það aðeins um ESB ríki, ekki EES ríkin Noreg og Ísland. Þá breytti það því ekki að íslensk flugmálayfirvöld þyrftu engu að síður að gefa út leyfi, til að flogið sé áætlunarflug til Bandaríkjanna.