*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 21. nóvember 2011 12:52

Astraeus stefnir í þrot

Vélar Astraeus fóru út í morgun en koma ekki aftur heim. Vélar CSA Airlines flytja farþega Iceland Express heim í kvöld.

Gísli Freyr Valdórsson
Boeing 757 vél í eigu Astraeus sem um tíma var nýtt til flugs fyrir Iceland Express.

Breska flugfélagið Astraeus, sem er í eigu Pálma Haraldssonar, mun samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins fara fram á gjaldþrotabeiðni í dag eða næstu daga.

Félagið hefur hingað til sinnt áætlunarflugi fyrir íslensku ferðaskrifstofuna Iceland Express, sem jafnframt er í eigu Pálma.

Eignarhaldsfélagið Fengur er eigandi bæði Astraeus og Iceland Express en Pálmi Haraldsson er sem kunnugt er stærsti eigandi Fengs.

Eins og greint var frá fyrir stundu hefur Iceland Express gengið frá samkomulagi við tékkneska félagið CSA Holidays, sem er í eigu CSA Airlines, um flug fyrir Iceland Express frá og með deginum í dag.

Vélar í eigu Astraeus flugu í morgun til Gatwick flugvallar í Lundúnum, Berlínar og Kaupmannahafnar. Þær vélar verða kyrsettar en vélar frá CSA Airlines, mun fljúga með farþega heim í dag. Þannig mun önnur vélin fljúga frá Berlin til Kaupmannahafnar og þaðan heim til Íslands. Búast má við talsverðum töfum á flugi í dag vegna þessa.

Breytingar á leiðarkerfi

Þá er að vænta töluverðra breytinga á leiðarkerfi Iceland Express á næstunni. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Iceland Express, að til standi að breyta flugi til Berlínar í síðdegisflug en hingað til hefur verið flogið á morgnana til Berlínar. Hins vegar er ekki hægt að kaupa flug til Berlínar eftir 6. janúar í sölukerfi Iceland Express.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá um helgina hefur Iceland Express hætt flugi tímabundið til Bandaríkjanna, en til stóð að fljúga til New York í vetur. Rétt er að taka fram að CSA Airlines hefur ekki leyfi til að fljúga frá Íslandi til New York þannig að það mun reynast Iceland Express erfitt um vik að halda Ameríkuflugi sínu áfram með vélar CSA Airlines.

Ef fer sem horfir verður Astraeus ekki fyrsta flugfélagið í eigu Pálma Haraldssonar sem verður gjaldþrota, en í lok október 2008 var danska flugvélagið Sterling lýst gjaldþrota en mikið var fjallað um Sterling fléttuna svokölluðu hér á síðum Viðskiptablaðsins í fyrra. Sterling hafði áður verið sameinað danska flugfélaginu Maersk Air.

Ekki náðist í Skarphéðin Berg Steinarsson, forstjóra Iceland Express og stjórnarformann Astreus, við vinnslu þessa fréttar.