Kvikmyndafyrirtækið Truenorth hefur ráðið Guðmund Arason sem framkvæmdastjóra, en hann fékk áður að kynnast fyrirtækinu í kringum stefnumótun sem hann vann að með eigendum.

„Í framhaldinu af því að við kláruðum þá vinnu spurðu þeir hvort ég vildi ekki stýra þeirri umbreytingu á félaginu. Ég tek að mér þennan dagsdaglega rekstur meðan stjórnarformaðurinn, Leifur B. Dagfinnsson, sér um framleiðsluna á kvikmyndum og þjónustuverkefnum,“ segir Guðmundur en hann segir rekstur Securitas, þar sem hann hafði starfað með hléum frá árinu 1992, og Truenorth vera nokkuð ólíkan.

„Í Securitas var reksturinn mjög jafn og þéttur og mikið af starfsfólki, meðan hérna er færra starfsfólk og reksturinn er mjög sveiflukenndur, enda fer hann eftir verkefnastöðu og gengi krónunnar. Svo okkar hlutverk verður að því leytinu öðruvísi því það þarf að sigla skútunni í gegnum hæðir og lægðir og reyna að jafna sveiflurnar út eftir fremsta megni.“

Til þess hyggst fyrirtækið styrkja starfsemi Truenorth í Noregi þar sem það hóf rekstur fyrir rúmu ári. „Þar eru ýmsir möguleikar á að sækja frekari tækifæri,“ segir Guðmundur sem segir að með fleiri stoðum undir starfsemina sé hægt að jafna út sveiflur í gengi mismunandi gjaldmiðlasvæða.

„Gengissveiflan annars staðar er allt öðruvísi en sú íslenska. Í dag er Noregur akkúrat í þeirri stöðu sem Ísland var í frá 2008 til 2010, þegar gengi íslensku krónunnar var okkur mjög hagstætt en nú er það að plaga starfsemina.“

Guðmundur er giftur Svanhildi Gestsdóttur flugfreyju og eiga þau þrjú börn á aldrinum 16 til 26 ára, en fyrir utan miðdótturina sem stundar fimleika af kappi hefur honum tekist að draga alla fjölskylduna með í aðaláhugamálið. „Golf er ástríðan mín, en ég byrjaði þegar ég var 6 ára og hef ég verið á fullu í því meira og minna síðan. Ég spilaði í gamla daga með unglingalandsliðinu en svo hoppaði ég beint yfir í öldungalandsliðið.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .