Leikararnir Gerard Depardieu og Christian Claver eru meðal þeirra Frakka sem hafa flutt til annarra ríkja vegna skattahækkana Frakklandsforseta, Francois Hollande, á efnameiri Frakka. Depardieu og Claver léku m.a. félagana Steinrík og Ástrík í samnefndum kvikmyndum.

Hollande hefur sett 75% skatt á tekjur yfir einni milljón evra og hefur bætt við hærri sköttum á fjármagnstekjur, hækkað eignaskatta og erfðafjárskatta og skatta á söluandvirði fyrirtækja.

Fleiri ástæður en skattahækkanirnar einar ráða því að efnafólk flýr Frakkland. Umboðsmaður Clavers sagði t.d. í október að Claver hafi ákveðið að flytja til London af ótta við að honum yrði refsað fyrir stuðning sinn við fyrrverandi Frakklandsforseta, Nicolas Sarkozy. Depardieu hefur flutt til Belgíu.