Fyrirtækið Ástund hóf starfsemi sína 19. nóvember 1976 sem bóka- og sportvöruverslun í verslunarmiðstöðinni Austurveri. Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessum árum, en fyrirtækið fagnaði nýlega 40 ára afmæli og kynnti til sögunnar nýjan hnakk sem hefur vakið mikla lukku. Þrátt fyrir að starfsemin hafi þróast verulega í gegnum árin, sérhæfir Ástund sig fyrst og fremst í framleiðslu hnakka og reiðtygja fyrir erlendan og innlendan markað.

Fyrirtækið hefur alla tíð verið rekið á sömu kennitölu og er því á góðri leið með að verða eitt rótgrónasta fjölskyldufyrirtæki landsins. Guðmundur Arnarson, einn af stofnendum fyrirtækisins, segir lykilinn að því vera að hafa ekki öll eggin í sömu körfu. „Við höfum á þessum 40 árum komið víða við og erum auðvitað þekktust fyrir hestana. Hins vegar höfum við starfað með ýmsum íþróttafélögum og vörumerkjum og selt varning þeirra. Við höfum aldrei verið óhrædd við að breyta til og að aðlaga okkur að breyttum tímum. Lykillinn að langlífi er að hafa ekki öll eggin í sömu körfu.“

Árið 1985 opnaði Ástund söðlasmíðaverkstæði með Hannesi Halldórssyni söðlasmiði, sem rak til margra ára söðlasmíðaverkstæði á Laugaveginum. Aðeins ári síðar var fyrsti Ástundarhnakkurinn framleiddur, sem gekk undir nafninu Ástund Special. Að sögn Guðmundar var hnakkurinn hannaður af honum og Arnari og var hann í raun upphafið að áframhaldandi þróun og vinsældum Ástundarhnakkanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.