Forráðamenn fyrirtækjanna telja aðstæður í efnahagslífinu almennt góðar samkvæmt niðurstöðu könnunar IMG Gallup. Um 75% aðspurðra telja aðstæður almennt góða en um 11% telja þær slæmar.

Könnunin er samstarfsverkefni fjármálaráðuneytisins, Samtaka atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands. Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 9. febrúar til 3. mars 2006 og voru alls 388 fyrirtæki í endanlegu úrtaki. Svarhlutfall var 68,3%. Könnunin nær til stærstu fyrirtækja á Íslandi, þar sem stuðst er við heildarlaunagreiðslur þegar stærstu fyrirtækin eru valin.

Í frétt á vef fjármálaráðuneytisins kemur fram að vísitala efnahagslífsins mælist nú 174,5 stig en var 156,4 stig í síðustu könnun sem framkvæmd var í október 2005. Hlutfall þeirra sem telja núverandi aðstæður almennt góðar fer því vaxandi frá því síðasta mæling átti sér stað. Forsvarsmenn fyrirtækja á landsbyggðinni eru almennt jákvæðari um stöðuna frá því síðasta mæling átti sér stað, en um 62% aðspurðra á landsbyggðinni telja núverandi aðstæður góðar til samanburðar við 44% í síðustu mælingu. Um 80% aðspurðra á höfuðborgarsvæðinu telja aðstæður í efnahagslífinu góðar sem er svipað hlutfall og mældist í síðustu könnun.

Þegar forráðamenn fyrirtækja eru beðnir um mat sitt á stöðu efnahagsmála 6 mánuði fram í tímann telja 17% þeirra að aðstæður verði betri samanborið við 8% í síðustu mælingu. Hlutfall þeirra sem telja að aðstæður verði óbreyttar eftir 6 mánuði mælist nú 60% en 23% aðspurðra telja að aðstæður muni versna.

Almennt virðast forráðamenn fyrirtækja vera svartsýnni um horfur á næstu tólf mánuðum en til skemmri tíma. Þegar spurt er um aðstæður 12 mánuði fram í tímann telja um 20% að aðstæður muni batna og 36% að aðstæður muni versna. Vísitala efnahagslífsins fyrir tólf mánuði mælist nú 71 stig en var í síðustu mælingu 49 stig. Hlutfall þeirra sem telja að aðstæður eftir tólf mánuði muni versna fer því lækkandi, forráðamenn fyrirtækja eru því ekki jafn svartsýnir að jafnaði og þeir voru í síðustu mælingu. Ef borin eru saman viðhorf forráðamanna mismunandi atvinnugreina þá eru það helst fyrirtæki í sjávarútvegi sem eru almennt bjartsýnni um horfur á næstu tólf mánuðum samanborið við aðrar atvinnugreinar.

Í könnuninni var jafnframt spurt um getu fyrirtækja til að bregðast við óvæntri aukningu í eftirspurn eða sölu. Einungis 10% aðspurðra sögðu starfsemi fyrirtækisins umfram hámarksframleiðslugetu, 45% að starfsemin væri í eða nálægt hámarksframleiðslugetu og svipað var hlutfall þeirra sem héldu því fram að starfsemin væri undir hámarksframleiðslugetu. Lítill munur er á svörum aðspurðra á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Ef litið er á mismunandi atvinnugreinar þá virðist vera sem einkum byggingastarfsemi og ýmis sérhæfð þjónusta starfi umfram eða nálægt hámarksframleiðslugetu. Í könnuninni var jafnframt spurt um hvort aðspurðir telji að þær aðstæður muni vara á næstu 6 mánuðum og töldu um 90% aðspurðra að svo yrði.