Breski vefurinn Money Week birtir grein í dag þar sem segir að bankar alls staðar í heiminum hafi farið á eyðslufyllerí með ódýru fjármagni, en þeir íslensku hafi gengið lengra í því en aðrir.

Þrír stærstu íslensku bankarnir hafi safnað innlánum af miklum móð til að fjármagna lánastarfsemi og kaup á eignum víðs vegar í Evrópu. Útkoman sé fjármalakerfi sem er níu sinnum stærra en verg landsframleiðsla Íslands, og slæmir timburmenn. Hins vegar virki samningar við norrænu seðlabankana eins og verkjalyf.

Í greininni segir að efnahagsástandið á Íslandi þrýsti á að Ísland gangi í ESB. Ísland hafi lengi haft góða ástæðu til að vera á móti aðild að ESB, þar sem 40% útflutnings landsins kom frá fiskiðnaðinum.

Séu menn efins er þeim bent á að spyrja hvaða fiskimann sem er á vesturströnd Írlands hvað honum finnst um ESB, sem opnaði aðgengi Spánverja að írskum veiðimiðum. Svo geti fólk margfaldað reiði hans með 10, þannig fáist hugmynd um hvað Íslendingum finnist um ESB. Hins vegar gæti aðild að ESB gefið landinu þann stöðugleika sem það þarf nú svo að hlutirnir gætu verið að breytast.

Grein Money Week.