?Kjósi fólk að nota nagladekk eykst óhjákvæmilega hættan á loftmengun í borginni,? segir Þorleifur Gunnlaugsson nýr formaður umhverfisráðs Reykjavíkurborgar. ?Öllum ætti nú að vera ljóst að í logni og þurrviðri á vetrardögum eru verulegar líkur á því að svifryksmengun fari yfir heilsuverndarmörk og því mega ökumenn gjarnan huga að öðrum kostum en nagladekkjum,? segir hann í tilefni af nýjum auglýsingum borgarinnar til að draga úr svifryksmengun í borginni.

Þorleifur bendir á að nagladekkin séu á hröðu undanhaldi í Evrópu og að í vetrardekkjakönnunum bílatímarita og systurfélaga FÍB komi skýrt fram að dekk með mjúku gúmmí reynist best í flestum aðstæðum. Slík dekk hafa gott grip og eru jafnframt slitsterk. (www.testworld.fi).

Í reglugerð um gerð og búnað ökutækja segir að nota megi neglda hjólbarða frá 1. nóvember til 15. apríl. ?Ég er hættur að setja nagladekk undir bílinn, kýs heldur góð vetrardekk og þvæ þau vel áður en ég fer yfir Hellisheiðina. Mikilvægast er að gæta alltaf fyllstu varúðar í hverjum aðstæðum,? segir Þorleifur.

Markmið Reykjavíkurborgar er að veita skilvirka og hagkvæma vetrarþjónustu á götum borgarinnar og stuðla með því að öryggi vegfaranda og íbúa borgarinnar. Snjór er mokaður og hálka eydd. Einnig felst forvarnarstarf gegn svifryksmengun m.a. í því að nýta betur almenningssamgöngur og göngu- og hjólreiðastíga. Helstu aðgerðir gegn svifryki felast í því að rykbinda götur borgarinnar með magnesíumklóríðblöndu áður en umferð hefst á líklegum mengunardögum.

Malbiksslit er veigamikill þáttur í svifryksmengun í borginni en svifryk eru örfínar agnir sem geta verið skaðlegar ef þær komast í lungu. Þessi mengun er ekki æskileg fyrir börn og fólk með viðkvæm öndunarfæri. Borgin vill af þessum sökum með auglýsingum, umræðu og fræðslu hvetja ökumenn til að kanna aðra kosti en nagladekk undir bíla sína. Slagorð auglýsinganna er ?Ryklaus Reykjavík ? og vekja athygli á áhrifum svifryksmengunar á heilsu. Þorleifur segir að það sé brýnt heilsuverndarmál að bæði borg og borgarbúar leggi sitt af mörkum til að draga úr rykmengun.

Svifryksmengun hefur á þessu ári farið 12 sinnum yfir heilsuverndarmörkin en samkvæmt reglugerð mega evrópskar borgir fara 23 sinnum yfir. Þessum skiptum fækkar ár frá ári og árið 2010 verða þau aðeins sjö. Íbúar geta fylgst með símælingum á svifryki á heimasíðum Reykjavíkurborgar, Umhverfissviðs, Menntasviðs og Leikskólasviðs.