Stærstu lífeyrissjóðir landsins hafa skipað þriggja manna nefnd til að leggjast yfir það hvort þeir eigi að kaupa að minnsta kosti 25% hlut í orkufyrirtækinu HS Orku.Af því tilefni tók Viðskiptablaðið saman átakasögu fyrirtækisins frá því að íslenska ríkið seldi hlut sinn í því í upphafi árs 2007.

Átakasaga HS Orku:

2007

1.janúar: Hitaveita Suðurnesja, síðar HS Orka, var að fullu í eigu sveitarfélaga og íslenska ríkisins.

Byrjun mars: Ríkið auglýsti 15,2% hlut sinn í fyrirtækinu til sölu. Öðrum orkufyrirtækjum á Íslandi var meinað að bjóða í hann.

30. apríl: Fjögur tilboð berast í hlut ríkisins. Langhæsta tilboðið er frá Geysi Green Energy (GGE), sem bauð 7,6 milljarða króna, um 40% hærra en næsti bjóðandi.  GGE var orkuútrásarfyrirtæki sem þá hafði nýverið verið stofnað af FL Group, Glitni og Mannviti. Aðrir eigendur HS eiga forkaupsrétt sem þeir ákveða að nýta sér í þeim tilgangi að reyna að halda fyrirtækinu í opinberri eigu.

11. júlí: Málamiðlun næst í baráttunni um hitaveituna með gerð hluthafasamkomulags. Það fól í sér að Reykjanesbær (34,7%), Orkuveita Reykjavíkur (16,5%), Hafnafjörður (15,4%) og GGE (32%) yrðu eigendur að HS Orku. Hafnafjörður mátti selja hlut sinn til OR, sem bærinn ákvað síðar að gera. Minni sveitafélög á Suðurnesjum áttu síðan saman 1%.

Október: tilkynnt um samruna GGE og Reykjavík Energy Invest (REI), útrásararms OR. Við það átti hlutur OR og GGE í HS að renna að renna inn í REI. Með hlut Hafnarfjarðar, sem OR mátti kaupa, hefði hið sameinaða REI átt 64% í HS. Á þessum tíma voru þær auðlindir sem HS nýtti við orkuöflun í eigu fyrirtækisins sjálfs og hefðu þar með komist í eigu einkaaðila. REI-samruninn gekk hins vegar tilbaka með látum líkt og frægt er orðið.

Desember: Hafnarfjörður ákveður að selja nánast allan eignarhlut sinn í HS til OR.

2008

1.janúar: Níu af þeim tíu sveitarfélögum sem áttu í HS ári áður höfðu annaðhvort selt sig út úr fyrirtækinu eða áttu undir 1% hlut.

18. apríl: Samkeppniseftirlitið úrskurðar að OR megi einungis eiga 3% hlut í HS.

1. desember: Ákveðið að skipta HS upp í tvö fyrirtækið, Orku og Veitur. Til að starfa í „anda laganna“ var ráðgert að Reykjanesbær myndi kaupa auðlindaréttindi gömlu HS en að HS Orka myndi leigja þau aftur til 65 ára. Af þessu varð ekki og auðlindirnar fylgdu með inn í HS Orku.

2009

23. janúar: samþykkt í stjórn OR að selja hlut fyrirtækisins í HS Orku.

18. mars: Héraðsdómur skikkar OR til að standa við kaup á hlut Hafnarfjarðar í HS sem það hafði skuldbundið sig til að kaupa, en OR hafði reynt að losna út úr kaupunum.

7. maí: Greint frá því í fjölmiðlum að erlendir fjárfestar hafi áhuga á að kaupa hlut í GGE. Síðar kemur í ljós að umræddur fjárfestir er Magma Energy frá Kanada.

25. júní: Drög að samkomulagi milli Reykjanesbæjar og GGE um sölu bæjarins á 34,7% hlut sinu í HS Orku kynnt á bæjarráðsfundi.

27. júní: Fjölmiðlar greina frá því að Magma ætli sér að kaupa hlut í HS Orku af GGE og að fyrirtækið hafi áhuga á eignarhlut OR sem þá var í söluferli.

14. júlí: Reykjanesbær samþykkir að selja hlut sinn í HS Orku til GGE. Á um 13 milljarða króna.

23. júlí: Magma kaupir 10,8% hlut í HS Orku af GGE.

14. ágúst: Stjórn OR hefur viðræður við Magma um að selja fyrirtækinu 32,2% hlut sinn í HS Orku. Á sama tíma er tilkynnt að Sandgerði ætli að selja sinn hlut í HS Orku til Magma.

21. ágúst: Greint frá því í fjölmiðlum að í fjármálaráðuneytinu væru uppi hugmyndir um að ríkið Reykjavíkurborg og Rarik keyptu 22% af eignarhluta OR í Hs Orku.

25-26. ágúst: Ross Beaty, forstjóri Magma, fundar tvívegis með íslenskum ráðamönnum, m.a. fjármálaráðherra.

28. ágúst: Fjölmiðlar greina frá því að ríkisstjórnin ætli að beita sér fyrir því að auðlindagjald fyrir nýtingu auðlinda HS Orku verði hækkað og að leigutími verði styttur. Magna lýsir yfir vilja til að taka þátt í því ferli.

31. ágúst: Greint frá því að ríkið, sveitarfélög (m.a. Grindavík) og lífeyrissjóðir muni reyna að eignast 55% hlut í HS Orku. Ekkert verður af áformunum eftir að lífeyrissjóðirnir neita að taka þátt í kaupunum.

15. september: Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að selja hlut OR til Magma.

2010

14. janúar: Viðskiptablaðið greinir frá því að Magma hefði keypt ódýrar aflandskrónur í október 2008 og notað þær til að fjármagna hluta af staðgreiðslu Magma fyrir hluti sem fyrirtækið hafði keypt í HS Orku.

11. febrúar: Ross Beaty segir við Viðskiptablaðið að Magma vilji eignast meira í HS Orku, en eignarhlutur fyrirtækisins var þá 41%. Hann sagði þó að Magma myndi ekki hreyfa sig mikið fyrr en afstaða stjórnvalda gagnvart eignarhaldi fyrirtækisins lægi fyrir. Sú afstaða breyttist skömmu síðar.Magma stofnaði um þetta leyti dótturfélag á Íslandi og réð Ásgeir Margeirsson, fyrrum forstjóra GGE, til að stýra því.

25. mars: Nefnd um erlenda fjárfestingu kemst að þeirri niðurstöðu að kaup Magma á 41% hlut í HS Orku í gegnum sænskt skúffufyrirtæki sé í samræmi við lög og verði ekki stöðvuð af stjórnvöldum.

17. maí: Tilkynnt um að Magma hafi keypt 52,3% hlut GGE í HS Orku á tæplega 16 milljarða króna. Eftir kaupin á Magma 98,5% hlut í HS Orku.  Ýmsir ráðherrar úr flokki Vinstri grænna vilja setja bráðabirgðalög á kaupin til að koma í veg fyrir að orkufyrirtæki verði nánast að öllu leyti í eigu erlends aðila.

3. júní: Viðskiptablaðið greinir frá því að í umhverfisráðherra sé að undirbúa framlagningu frumvarps sem takmarki eignarhald einkaaðila á orkufyrirtækjum. Tilgangurinn var að tryggja opinber yfirráð í HS Orku. Samkvæmt því átti að þynna eignarhluta Magma á sjö til tíu ára tímabili. Frumvarpið hefur enn ekki verið lagt fram.

30. júní: Reykjanesbær kaupir land og jarðhitaréttindi í Svartsengi af HS Orku. Þar með var allt land og auðlindir sem HS Orku nýtir í eigu opinberra aðila.

22. júlí: Ross Beaty býður Björk Guðmundsdóttur, sem farið hefur fyrir mótmælum gegn eignarhaldi Magma, að kaupa 25% hlut í HS Orku á 7,6 milljarða króna.

16. nóvember: Beaty greinir frá því að Magma hafi hug á því að selja 25% hlut í HS Orku til íslenskra fjárfesta til að skapa frið um eignarhaldið.

2011

27. janúar: Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra útilokar ekki að ríkið myndi taka eignarhlut Magma í HS Orku eignarnámi.

31. janúar: Viðræður milli ríkis, Magma og Reykjanesbæjar um styttingu á leigutíma auðlinda HS Orku og kaupa á landssvæðum sem auðlindirnar eru á hefjast.