Tölvuleikjafyrirtækið og raftækjaframleiðandinn Atari hyggst reisa átta „tölvuleikjahótel“ víðsvegar um Bandaríkin í samstarfi við þarlend fasteignaþróunarfélög.

Sérstök tölvuleikjasvæði munu meðal annars bjóða upp á sýndar- og viðbótarveruleikaleiki (VR & AR), auk þess sem sum hótelanna munu geta hýst stór rafíþróttamót.

Hótelin – sem verða staðsett í borgunum Austin, Chicago, Denver, Las Vegas, San Fransisco, San Jose og Seattle – munu ennfremur innihalda fundarsali og annarskonar vinnusvæði, veitingastaði, bari, bakarí, kvikmyndasal og íþróttasal.

Markhópurinn verður því fjölbreyttur, en meðal annars er horft til fjölskyldna og fólks sem ferðast vegna vinnu sinnar. Samkvæmt samningnum fær Atari 5% af tekjum hótelanna, auk þess sem undirritun samningsins fylgdi 600 þúsund dala, eða um 75 milljón króna, eingreiðsla.

Umfjöllun The Verge .