„Það er mikið áhyggjuefni finnst mér, að vissar heilbrigðisstéttir skuli raunverulega varpa ábyrgðinni á öryggi sjúklinga yfir á einhvern annan. Að mínu mati er það alveg mjög skýrt í öllum siðareglum heilbrigðisstétta að þær eiga að setja öryggi sjúklinga ofar öllu öðru." Þetta er haft eftir Birgi Jakobssyni, landlækni, í útvarpsfréttum Ríkisútvarpsins.

Formaður Félags geislafræðinga, Katrín Sigurðardóttir, segir hinsvegar rangt að geislafræðingar beri ábyrgð á afleiðingum verkfallsins . „Afleiðingar af verkfallinu eru ekki á okkar ábyrgð,“ er haft eftir Katrínu í Fréttablaðinu.

Raunveruleg hætta á að sjúklingar deyji

Ástæðuna kveður Birgir vera þá að raunveruleg hætta sé á því að sjúklingar muni deyja vegna þess að geislafræðingar, og fleiri heilbrigðisstéttir, séu í verkfalli. Þá hafa stjórnendur Landspítalans sagt að þeir geti ekki tryggt öryggi sjúklinga og gert athugasemdir við afgreiðslu á undanþágubeiðnum frá verkfalli heilbrðigðisstarfsmanna. Nær allar slíkar beiðnir hafi verið samþykktar, nema hjá geislafræðingum.

„Staðan er afskaplega alvarleg. Við höfum verið að kalla eftir gögnum frá öllum heilbrigðisstofnunum landsins þessa vikuna og erum að vinna úr þeim. Það er greinlegt að það er aðallega Landspítalinn og að vissu leyti sjúkrahúsið á Akureyri sem lenda verst í þessu. En skilaboðin frá þeim eru mjög skýr, þeir telja sig ekki geta tryggt öryggi sjúklinga lengur," segir Birgir Jakobsson.