„Þetta er óneitanlega talsverð breyting. Það liggur við að þetta sé nánast eins og að flytja að heiman," segir Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir. Brátt tekur hún við starfi sölu- og markaðsstjóra VÍS eftir sautján ára starf hjá Icelandair.

Hjá flugfélaginu hefur Ingibjörg brugðið sér í ýmsan búning. Fyrst starfaði hún við vildarklúbb félagsins, svo sem forstöðumaður Saga Club og síðar svæðisstjóri íslenska markaðarins. Seinna meir var hún beðin um að stýra framlínuþjónustu og koma á fót þjónustu- og notendaupplifunardeild, sem nýverið varð hlutskörpust í European Customer Centricity Awards, sem hún hefur stýrt allt þar til hún færir sig nú til VÍS.

„Gegnum árin hefur maður kynnst öllum innviðum félagsins sem og meirihluta þess góða fólks sem hér starfar. Gælunafnið „Ingibjörg hjá Icelandair" hefur fest við mann með árunum, bæði hjá vinum, viðskiptavinum og starfsfólki en ég taldi að tími væri kominn á nýja áskorun eftir að hafa komist í tæri við flesta fleti hjá Icelandair," segir Ingibjörg.

Hjá VÍS mun Ingibjörg koma til með að vinna að sölu og markaðsmálum ásamt því að reyna að tryggja að upplifun viðskiptavina af þjónustunni sem best.

„Maður er að skipta yfir í allt annan bransa og allt annan gír. Ferðaþjónustan og flugið er alþjóðlegur og dýnamískur geiri sem sefur aldrei og deildin okkar var í framlínunni á öllum mörkuðum. Við þurftum að taka hvern slaginn á fætur öðrum og ég tel að sú reynsla muni nýtast vel á nýjum stað þótt starfið sé eðlisólíkt. Mér finnst rosalega spennandi að taka þessa reynslu með mér inn í það sem fram undan er hjá VÍS."

Nánar er rætt við Ingibjörgu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .