Skortur á tæknimenntuðu fólki er áþreifanlegur hér á landi, að sögn Bjarna Más Gylfasonar, aðalhagfræðings Samtaka iðnaðarins. Í úttekt Viðskiptablaðsins um vinnumarkaðinn er m.a. rætt við Bjarna og segir hann ótal dæmi um fyrirtæki sem auglýsi eftir fólki í vissar stöður og fái varla neinar umsóknir. Á sama tíma er atvinnuleysi mjög hátt.

Bjarni segir að til að breyta þessu til framtíðar sé mikilvægast að huga að áherslum í kennslu á grunn- og framhaldsskólastigi og áherslum í menntun og endurmenntun kennara. „Því miður er það þannig að margir þeirra sem velja að mennta sig sem grunnskólakennarar hafa valið sig frá stærðfræði og raunvísindum á sinni skólagöngu og hafa því síður áhuga á þessum greinum og það sama á við um þá sem læra starfs- og námsráðgjöf. Eins sjáum við að í námskrá grunnskólans hefur áhersla á stærðfræði og raunvísindi verið að veikjast og er mun valkvæðari í hverjum skóla fyrir sig og það sama á við um verklegt nám á grunnskólastigi,“ segir Bjarni og bætir við að í þessum greinum sé lykilatriði að kennsluefni og kennsluaðferðir byggi á nýjustu tækni, sé metnaðarfullt og áhugavekjandi og kveiki löngun og forvitni nemenda.

Nám er vinnandi vegur

Að sögn Bjarna eru fá ráð sem duga til skamms tíma en þó ljóst að vissar breytingar þurfi að eiga sér stað, sumar hverjar hugarfarslegar en aðrar kerfislægar. „Í fyrsta lagi þarf að minna á að menntun á sviði iðn- og tæknimenntunar er eftirsótt á vinnumarkaðnum og skapar ótal fjölbreytt atvinnutækifæri. Til lengri tíma mun þetta skapa samkeppnishæfara efnahagslíf á Íslandi. Í annan stað má nefna að beina þeim sem eru án atvinnu og vilja fara í nám inn á þessar brautir. Það er nú þegar hafið í umfangsmiklu verkefni sem kallast Nám er vinnandi vegur. Loks má nefna mikilvægi þess að standa vörð um verk- og tæknigreinar á niðurskurðartímum í skólakerfinu. Að okkar mati hefur það ekki verið gert.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.