Innanríkisráðuneytið gerir nú athugun á því hvort fýsilegt sé að Ísland gerist aðili að og innleiði Höfðaborgarsáttmálann. „Nú er unnið að því í innanríkisráðuneytinu að fara yfir samninginn og meta áhrif hans á íslenskar aðstæður.

Þegar það liggur fyrir mun ég taka ákvörðun um það hvort lagt verði til að gerast aðili að honum, sem síðan er háð samþykki Alþingis,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra. Gæti bætt samkeppnisstöðu íslenskra flugfélaga Innanríkisráðherra telur mögulegt að innleiðing sáttmálans geti bætt rekstrarskilyrði og samkeppnishæfni íslenskra flugfélaga. „Ef af því verður að Ísland gerist aðili að sáttmálanum þá mun hann hafa sömu áhrif á flugvélakaupendur hér á landi, hvort sem um er að ræða íslensk flugfélög eða önnur fjárfestingarfyrirtæki, og hann hefur haft í þeim ríkjum sem þegar hafa innleitt sáttmálann.

Það felur mögulega í sér ódýrari fjármögnun á flugvélakaupum og greiðari aðgang að þeim aðilum sem fjármagna slík kaup,“ segir innanríkisráðherra. Ari Guðjónsson, lögfræðingur hjá Icelandair Group og sérfræðingur um Höfðaborgarsáttamálann, segir að samræmdar og einfaldar alþjóðareglur sem tryggi réttindi kröfuhafa muni augljóslega geta haft mikil áhrif á íslensk flugfélög. „Bandaríski Export-import bankinn hefur til að mynda lýst því yfir að áhættuþóknun vegna flugvélakaupa lækki um þriðjung hjá kaupendum í ríkjum sem innleiða Höfðaborgarsáttmálann. Það er sjaldgæft að innleiðing þjóðréttarsamnings geti haft bein áhrif á fjármögnun fyrirtækja með þessum hætti strax við innleiðingu,“ segir Ari

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð.