Straumur
Straumur
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Viðskiptablaðið hefur fengið sendar tvær athugasemdir frá eignaumsýslufélaginu ALMC hf. við fréttir sem birtust í Viðskiptablaðinu í morgun, fimmtudaginn 6. október. Fréttirnar varða ALMC og dótturfélag þess Straum.

Hér að neðan eru athugasemdirnar birtar í heild. Fyrri athugasemdin á við frétt sem birtist á síðu 6 og seinni á við frétt á síðu 10.

Athugasemd við frétt sem ber fyrirsögnina: „Mikið tap hjá ALMC í fyrra“:


ALMC er ekki banki, eins og ranghermt er í frétt Viðskiptablaðsins, heldur eignaumsýslufélag utan um eignir og skuldir sem tilheyrðu Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka hf. Í lok árs 2010, voru heildareignir ALMC 1.057 milljónir evra og skuldir við aðra en hluthafa 419 milljónir evra. ALMC er að mestu í eigu erlendra fjárfesta.

Straumur fjárfestingarbanki hf. er dótturfélag ALMC. Straumur hóf starfsemi sem banki 1. september síðastliðinn. Í lok árs 2010 voru eignir Straums 1,1 milljarður króna og skuldir nánast engar.

Með þessar staðreyndir í huga ætti lesendum Viðskiptablaðsins að vera ljóst að umrædd frétt inniheldur rangfærslur og þar er ýmsu ruglað saman.

Athugasemd við frétt sem ber fyrirsögnina: „Stjórnað af Deutsche Bank og hæft til að eiga Straum“:


Við samþykkt nauðasamninga ALMC hf. (áður Straums-Burðaráss) var kröfum umbreytt í hlutdeildarskírteini (samsett hlutabréf og skuldabréf) í ALMC. Þar með færðust yfirráð yfir félaginu í hendur kröfuhafa þess. Deutsche Bank AG í Amsterdam heldur á yfir 99% af hlutdeildarskírteinum ALMC í hlutverki vörsluaðila (e. Custody) fyrir hönd hinna eiginlegu hluthafa sem eru að langstærstu leyti alþjóðlegir fjárfestar. Það er því ekki rétt að Deutsche Bank stýri ALMC eins og segir í fyrirsögn fréttarinnar.

Fjármálaeftirlitið skipaði Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf. (nú ALMC hf.) skilanefnd þann 9. mars 2009. Skilanefnd tók yfir vald fyrrum stjórnar og hluthafafundar. Frá þessu tímamarki töpuðu hluthafar bankans öllu hlutafé sínu, þar á meðal Samson Global Holding sarl. Samson Global Holding sarl átti ekki kröfur á hendur ALMC og varð því ekki eigandi félagsins í tengslum við nauðasamninga sem samþykktir voru 2010.