© Aðsend mynd (AÐSEND)
Jóhann Hauksson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, hefur sent Viðskiptablaðinu athugasemd vegna pistils Týs , sem birtist á vb.is miðvikudaginn 28. mars. Í athugasemdinni kemur fram að pistillinn sé efnislega afar villandi. Í skrifunum var vitnað í frétt Viðskiptablaðsins um að til stæði að endurnýja ráðherrabílana.

Í athugasemdinni segir orðrétt:

Hið rétta í málinu er eftirfarandi:

  • Haustið 2010 fékk Rekstrarfélag Stjórnarráðsins það verkefni frá ríkisstjórninni að taka við ráðherrabifreiðunum og gera áætlun um endurnýjun þeirra.
  • Snemma á þessu ári var slík áætlun tilbúin og gerður rammasamningur til þriggja ára.
  • Niðurstaðan hefur verið kynnt rekstrarstjórum og í kjölfarið ákvað ríkisstjórnin að engar nýjar bifreiðar yrðu keyptar á þessu ári. Það á vitanlega einnig við um bifreið forsætisráðherra.
  • Benda má á að bílafloti ráðherranna er orðinn gamall og viðhald eykst að sama skapi.
  • Jafnframt má benda á að núverandi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir miklum umbótum á Stjórnarráði Íslands sem meðal annars hefur falist í sameiningu ráðuneyta og fækkun ráðherra. Við það minnkar bílafloti ráðherranna.