Viðskiptablaðinu hefur borist eftirfarandi athugasemd frá Skilanefnd Landsbankans:

,,Skilanefnd Landsbanka Íslands hf.  vill taka fram vegna fréttar í Viðskiptablaðinu um málefni Landsbankans í Lúxemborg að fullyrðing um að „Icesave skuld“ geti hækkað vegna taps þar um 130 milljarða króna er röng.  Skilanefndin hefur gert ráð fyrir óverulegri innkomu frá búi Landsbankans í Lúxemborg frá upphafi og því hafa málefni þess lítil sem engin áhrif á það mat sem Skilanefndin hefur gert og lagt hefur verið til grundvallar um stærð Icesave skuldbindinganna. Það stenst því ekki að Icesave skuldin eins og fjallað hefur verið um muni hækka frá því sem gert hefur verið ráð fyrir vegna Landsbankans í Lúxemborg."

Svar Viðskiptablaðsins

Það er auðvitað sérkennileg fullyrðing að segja að uppgjör þrotabús Landsbankans í Lúxemborg skipti ekki máli vegna þess að það er þegar búið að afskrifa það! Það er sömuleiðis forvitnilegt að sjá að Skilanefndin hefur gert ráð fyrir óverulegri innkomu þarna frá upphafi. Það breytir því ekki að veruleg verðmæti felast í búinu og uppgjör á veðskuldum við Seðlabanka Evrópu og Seðlabanka Lúxemborgar skipta verulegu máli enda veðin fyrir skuldunum að stórum hluta íslensk veðbréf. Það er heldur ekkert leyndarmál og hefur komið ítrekað fram í fjölmiðlum að verulegar athugasemdir hafa verið gerðar við meðhöndlun Skilanefndar á málefnum Landsbankans í Lúxemborg.

Viðskiptablaðið mun halda áfram að fjalla um málið enda ljóst að afdrif þrotabúsins munu skipta verulegu máli fyrir innlánseigendur og hugsanlega íslenska skattgreiðendur.

Sigurður Már Jónsson

ritstjóri Viðskiptablaðsins