Evrópusambandið krefst þess að Google geri stórtækar breytingar á fyrirhugaðri yfirtöku félagsins á Fitbit til þess að 2,1 milljarða dollara samningurinn geti orðið að veruleika.

Yfirtakan, sem var tilkynnt í nóvember, hefur verið mætt með töluverðri andstöðu. Áhyggjur snúa að þeim áhrifum sem samruninn kann að hafa á samkeppni er Google fær aðgang að upplýsingum Fitbit.

Sjá einnig: Apple sleppur við 14,3 milljarða sekt

Evrópusambandið vill að Google skrifi undir ákvæði þess hljóðandi að félagið muni ekki nota upplýsingar Fitbit til að auka forskot þess, auk þess vill sambandið að Google veiti þriðju aðilum jafnan aðgang að upplýsingunum. Þetta er haft eftir heimildum Financial Times.

Skyldi Google neita getur málið lengst töluvert og líklegt að það bitni fremur á Evrópusambandinu en Google. ESB hefur til 8. ágúst næstkomandi til að ákvarða framþróun málsins.