Í dálknum Bæjarrómur í Viðskiptablaðinu í dag er gefið í skyn að Síminn, sem birti sex mánaða uppgjör sitt þann 25. ágúst, gæti átt í verulegum erfiðleikum með að þjónusta skuldir og vaxtagreiðslur.

Þar segir: ?... og hörðustu gagnrýnendur segja að þeir eigi hvorki fyrir vöxtum né afborgunum." Bæjarrómur endurspeglar vangaveltur aðila í viðskiptalífinu og er ekki skoðun blaðamanns, né Viðskiptablaðsins. Hins vegar er það ekki tilgangurinn að miðla röngum eða villandi upplýsingum, eins og raunin varð í dag. Þessi efnisþáttur hefur sérstöðu meðal annars ritstjórnarefnis.

Við nánari eftirgrennslan kemur í ljós að Síminn getur auðveldlega staðið við skuldbindingar sínar. Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta á fyrstu sex mánuðum ársins 2006 nam 4,3 milljörðum króna og hækkaði um 11%. Hagnaður félagsins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 3,99 milljörðum króna, sem er 12,1% aukning. Greiddir vextir á fyrstu sex mánuðum ársins námu 1,15 milljörðum króna og afborganir langtímalána á tímabilinu námu 941 milljón. Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins er 30,9%.

Við kaup á eignarhlut ríkisins í Símanum í fyrra var félagið skuldsett (e. leveraged buyout). Um 70% þeirra skulda eru í erlendri mynt, sem skýrir tap af rekstri félagsins á fyrri helmingi ársins. Hlutfall skuldsetningar á móti EBITDA (e. levarage ratio) er ekki óeðlilegt við sambærileg kaup á símafyrirtækjum erlendis. En með því að skuldsetja fyrirtækið í erlendri mynt verður það viðkvæmt fyrir þróun á gengi íslensku krónunnar. En við uppgjör á rekstri Símans er stuðst við gengisvísitölu í 134,2 stigum. Hins vegar hefur krónan styrkst töluvert síðan og ekki er ólíklegt að gengishagnaður verði á þriðja ársfjórðungi.

Einnig er vert að benda á að samanburður við uppgjör Dagsbrúnar í Bæjarrómi er villandi og þegar þegar málið er skoðað nánar kemur í ljós að hann er ósanngjarn. Viðskiptablaðið biðst velvirðingar á mistökunum.

Gunnlaugur Árnason, ritstjóri.