Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að sjálfstæði bankastjóra Seðlabankans þurfi að vera tryggt auk þess sem sjaldan sé gert ráð fyrir einni sérstakri menntun viðkomandi heldur frekar horft til „viðurkenndrar þekkingar eða reynslu“ við ráðningu Seðlabankastjóra.

Þetta kemur fram í umsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) við frumvarpi forsætisráðherra um breytingar á Seðlabankanum sem nú hefur verið birt á vef ráðuneytisins.

Í umsögn IMF kemur fram að reglur um vanhæfi og brottrekstur Seðlabankastjóra þurfi að vera skýrar og sem fyrr segir tryggja sjálfsstæði bankastjóra ef hann er að öðru leyti hæfur til að sinna starfi sínu, það er ef hann hefur ekki brotið lög, er ekki veikur og svo framvegis.

Þá segir í umsögn IMF að ekki sé óalgengt að Seðlabankastjóri njóti aðstoðar eins til tveggja aðstoðarseðlabankastjóra (e. deputy governors) og segir sjóðurinn að skilyrði fyrir ráðningu og brottrekstri þeirra eigi að vera þau sömu og gildi um Seðlabankastjórann.

Rétt birta fundargerðir bankaráðs eftir ákveðinn tíma til að koma í veg fyrir hagsmunatengsl

IMF víkur einnig að fyrirhugaðri peningastefnunefnd í umsögn sinni og segir mikilvægt að sá sem skipaður sé í hana þurfi að vera skipaður til ekki minni tíma en sá sem skipar í nefndina heldur á embætti. Með öðrum orðum að ef sá sem sér um að skipa í nefndina hefur tækifæri til að hreyfa mikið við henni mun vera vegið að sjálfstæði nefndarmanna.

Þá er einnig tekið fram að ef stjórnendur bankans, t.a.m. seðlabankastjórar eru hluti af peningastefnunefndinni þarf umboð þeirra og skipun í nefndina að liggja skýrt fyrir.

Í umsögn sinni tekur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn einnig fram að gæta þurfi að því að hagsmunir nefndarmanna peningastefnunefndarinnar rekist ekki á, t.a.m. ef viðkomandi er þátttakandi í viðskiptalífinu. Tekið er fram að sjaldan sé um fullt starfa að ræða og því nauðsynlegt að setja viðmiðunarreglur um nefndarsetu.

Þá þurfi ákvæði um vanhæfni og brottvikningu nefndarmanna einnig að vera skýr samkvæmt lögum líkt og bankastjóranna.

Þá tekur IMF fram að réttast væri að birta fundargerðir peningastefnunefndarinnar opinberlega eftir ákveðinn tíma.

Lögin þurfa að vera skýrari

Að lokum víkur IMF að núverandi lögum um Seðlabankann. Þar kemur fram að óljóst sé með vald forsætisráðherra (sem yfirmanns Seðlabankans) annars vegar og bankastjórnar bankans hins vegar. Þannig þurfi að skilgreina nákvæmar hvar valdsvið þeirra liggi og taka þannig af allan vafa.

Þá kemur einnig fram að í núverandi lögum sé ekkert sem banni embættismönnum eða stjórnmálamönnum að vera meðlimir bankastjórnar bankans.

Þá séu lög um bankann óskýr er varðar hæfniskröfur þeirra sem sæti eiga í bankaráðinu auk þess sem óljóst sé með ákvæði um brottvikningu bankaráðsmanna.

Sjá skýrsluna í heild sinni. (pdf skjal)