Alþjóðagjaldeyrisstofnunin (IMF) hefur varað Pólverja við mögulegum pólitískum áhrifum sem ný fjármálaeftirlitsstofnun þar í landi gæti orðið fyrir, segir í frétt Financial Times. Til stendur að setja á laggirnar nýja eftirlitsstofnun í Póllandi sem mun hafa eftirlit með verðbréfamarkaðnum, eftirlaunasjóðum, tryggingamarkaðnum og bönkum landsins.

IMF telur hins vegar að löggjöf í kringum stofnunina sé afar ótraust, þar sem megin forsenda um skilvirkni fjármálaeftirlitsstofnana sé að þær verði óháðar pólitískum afskiptum. Afskipti stjórnvalda gætu haft neikvæð áhrif á bankamarkaðinn, minnkað traust fjárfesta og jafnvel valdið efnahagshruni í versta falli, segir í fréttinni.

Löggjöfin felur meðal annars í sér að af þeim sjö meðlimum stofnunarinnar yrðu sex skipaðir af ríkisstjórninni eða forseta landsins. Þetta segir IMF ekki samræmast fyrirkomulagi á sambærilegum stofnunum annars staðar í heiminum. Seðlabanki Póllands, hagfræðingar og ýmis fyrirtæki hafa einnig gagnrýnt löggjöfina. Talsmenn pólskra banka hafa lítið vilja tjá sig um málið, þar sem þeir telja það gæti orðið til þess að ríkið hefji rannsókn á bönkum landsins. Fulltrúi eins bankans sagði þó að löggjöfin væri stórhættuleg þar sem nýja stofnunin fæli forsætisráðherra Póllands gríðarleg völd, segir í fréttinni.