Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti segir enga ákvörðun hafa verið tekna um það hvort Fiskistofa hafi verið flutt eða ekki. Því hafi lagagrundvöllur fyrir flutningi stofnunarinnar frá Hafnarfirði til Akureyrar ekki verið kannaður. Ekki hafi verið sérstök ástæða til að gera það áður en Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tilkynnti starfsmönnum Fiskistofu þann 27. júní áform um að flytja stofnunina. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurnum Umboðsmanns Alþingis um efnið.

„Eins og áður greindi, höfðu á þessum tímapunkti ekki komið fram sjónarmið um að lagagrundvöllur fyrir flutningi Fiskistofu væri ótryggur. Talið var að slík heimild væri eðlilegur hluti af stjórnunarheimildum ráðherra gagnvart stofnunum sem undir hann heyra en ekki hafði verið aflað lögfræðiálits um málið," segir í svarinu.

Í svari ráðuneytisins er það ítrekað að engin ákvörðun liggi enn fyrir um flutninginn, heldur sé einungis um áform að ræða.

Ekki víst að lagaheimild þurfi

Í svarinu kemur jafnframt fram að í ljósi þess að höfuðstöðvar Fiskistofu séu staðsettar í Hafnarfirði, en ekki í Reykjavík, sé ekki víst að sérstaka heimild þurfi til að flytja höfuðstöðvarnar til Akureyrar. Leiði þetta af 2. mgr. 13. gr. stjórnarskrár, sem segi að ráðuneyti skuli staðsett í Reykjavík.

Vegna þess að Fiskistofa sé ekki í Reykjavík sé ekki augljóst að ráðherra þurfi að hafa sérstaka lagaheimild til að flytja stofnanir, svo lengi sem það sé ekki verið að flytja þær úr Reykjavík.