Beinn útlagður kostnaður FL Group á síðasta ári vegna athugunar á kaupum á Inspired Gaming Group nam tæpum 800 milljónum íslenskra króna. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skriflegu svari Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, stjórnarformanns FL Group, við fyrirspurn Vilhjálms Bjarnasonar, hluthafa í FL Group.

Fyrirspurn Vilhjálms til FL Group er í átta liðum og bárust honum svörin í dag. Einhver svör hafði hann þó fengið á aðalfundi félagsins fyrr í mánuðinum.

Vilhjálmur segir í samtali við Viðskiptablaðið að velta Inspired Gaming Group hafi numið um 170 milljónum punda á síðasta ári. FL Group hafi haft í hyggu að kaupa það á fmmtíu  milljarða íslenskra króna.

Vilhjálmur segir aðspurður um svörin að þau séu ekki mikilfengleg. Hann kveðst þó ekki vera búinn að gera það upp við sig hvort hann muni senda inn frekari fyrirspurnir.

Vilhjálmur spyr meðal annars hvort Sigurður Helgason hafi á sínum tíma fengið 3000 dollara á dag frá FL Group í dagpeninga þegar hann sótti stjórnarfundi hjá Finnair, hvað Jón Þór Sigurðsson eða fyrirtæki hans hafi fengið í laun frá FL Group og hvað félag í eigu Hannesar Smárasonar hafi fengið greitt vegna afnota af flugvél, sem hann á hlut í.

Við þessum spurningum fengust engin svör. Var í því sambandi meðal annars vísað til þess að FL Group greindi ekki frá kjörum einstakra starfsmannna eða þjónustuaðila.