Athugun á möguleikum byggingar álvers í Helguvík miðar nokkuð vel segir Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja í pistli í nýjasta fréttabréfi HS. "Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að staðsetningin sé í lagi og engin sérstök vandamál varðandi umhverfismál og nálægð við byggð," segir Júlíus.

Landsnet hf. hefur verið að skoða flutningsleiðir og telur hvorki tæknileg né fjárhagsleg vandamál við staðsetninguna. "Stóra málið virðist vera, eins og rendar var búist við, orkuöflunin fyrir álverið. Norðurál á í viðræðum við
Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun um mögulega aðkomu þeirra, en vart er búist við niðurstöðum fyrr en um mitt næsta ár úr þeim viðræðum.
HS hf hefur óskað eftir rannsóknarleyfum fyrir 3 jarðhitasvæði í Krýsuvík en beiðnina er ekki unnt aðtaka til efnislegrar meðferðar fyrr en lokið er gerð
rannsóknaráætlunar sem fylgja skal beiðninni," segir Júlíus

Ísor (Íslenskar orkurannsóknir hf.) vinna nú að gerð áætlunarinnar og er þess vænst að hún verði tilbúin í lok september og þá er málið komið í ákveðinn lögbundinn feril sem vonast er til að geti fengist niðurstaða í fyrir áramót eða a.m.k. fljótlega á næsta ári. Það er þó kannski óhófleg bjartsýni miðað við fimm og hálfs árs feril vegna rannsóknarleyfis í Brennisteinsfjöllum (frá 27. apríl 2000).

HS hf hefur síðan rannsóknarleyfi í Trölladyngju og hyggst á næsta ári bora þar aðra rannsóknarholu til þess vonandi að fullreyna hvort um arðbæra virkjunarmöguleika sé þar að ræða.