Athygli ehf. hefur fest kaup á ferðatímaritinu Útiveru en það var síðast gefið út af Fjölvaútgáfunni síðla árs 2008. Nú er ætlunin að blása nýju lífi í þetta vinsæla tímarit og verða fjögur tölublöð gefin út á þessu ári og þeim fjölgað á næsta ári ef vel gengur segir í tilkynningu.

Að sögn Valþórs Hlöðverssonar framkvæmdastjóra Athygli hefur fyrirtækið mikla trú á Útiveru enda um að ræða sérhæft tímarit um útivist og ferðalög sem margir bíði eftir.

„Útivera var stofnuð árið 2003 af nokkrum áhugamönnum um útgáfu og fjallamennsku og við ætlum að halda okkur við þær línur sem þar voru lagðar. Í blaðinu verður fjallað um ferðalög innanlands og til fjarlægari landa, hvort sem er á tveimur jafnfljótum eða með farartækjum. Áhersla verður lögð á leiðarlýsingar með góðum ljósmyndum og birt verða viðtöl við fólk sem tengist ferðamennsku - allt þetta á erindi í Útiveru,“ segir Valþór í tilkynningu en hann verður jafnframt jafnframt verður ritstjóri blaðsins, a.m.k. framan af.

Fyrsta tölublað ársins mun líta dagsins ljós í lok aprílmánaðar og verður þar fjölbreytt og áhugavert efni. M.a. verður fjallað um Arnarfjörð í máli og myndum og áhrif þess ef olíuhreinsunarstöð rís þar af grunni, ferðasögu frá Víetnam verður að finna í blaðinu, þar verður grein um Fimmvörðuháls og það svæði sem nú er undirorpið áhrifum eldgoss auk þess sem slegist verður í för með hjólagörpum um Evrópu og Laugavegurinn genginn að haustlagi. Er þá fátt eitt nefnt.

Í ritnefnd Útiveru eru þau Ragnheiður Davíðsdóttir, Páll Ásgeir Ásgeirsson og Gunnar Hólm Hjálmarsson.  Blaðið verður sent til áskrifenda og verður í lausasölu um land allt.