Í gærkvöldi höfðu engar uppsagnir geislafræðinga á Landspítalanum verið dregnar til baka, en alls voru þær átján talsins og áætlað að þær tækju gildi á miðnætti. Þetta segir Katrín Sigurðardóttir, formaður Félags geislafræðinga, í samtali við Morgunblaðið .

Geislafræðingarnir sögðu upp störfum í verkfallsaðgerðum félagsins fyrr á árinu, en gerðardómur úrskurðaði um kjör þeirra 14. ágúst síðastliðinn. Katrín segir mikillar óánægju gæta meðal geislafræðinga þar sem ákvæði stofnanasamninga hafi ekki verið uppfyllt og starfsumhverfi óviðunandi. Stjórnendur spítalans hafi ekki brugðist við óskum geislafræðinga.

Óskar Reykdalsson, framkvæmdastjóri rannsóknarsviðs Landspítalans, segir í samtali við Morgunblaðið að staðan komi honum í opna skjöldu þar sem bætt hafi verið úr málum eftir ábendingar geislafræðinga og fundi með stjórnendum. Viðurkennt hafi verið að stofnanasamningum hafi ekki verið fylgt varðandi ákveðnar greiðslur fyrir vaktavinnu og meirihluti geislafræðinga fái ógreidd laun tvö ár aftur í tímann.