Hæstiréttur staðfesti í dag eins og hálfs árs fangelsisdóm yfir Hauki Þóri Haraldssyni, en vegna tafa á rekstri málsins er ríkissjóði gert að greiða tvo þriðju málsvarnarkostnaðar Hauks, sem var alls sex milljónir króna.

Haukur Þór var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í átján mánaða fangelsi fyrir fjárdrátt þann 25. júní í fyrra . Haukur Þór starfaði hjá Landsbankanum fyrir hrun og var sakfelldur fyrir að hafa strax eftir hrun Landsbankans millifært 118 milljónir króna af reikningi félagsins NBI Holdings Ltd. 8. október 2008 inn á eigin reikning.

Þetta er þó ekki í fyrsta skiptið sem málið kemur til kasta dómstóla, því Hæstiréttur hefur tvisvar sinnum ógilt dóma Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu og vísað því aftur til efnismeðferðar.