Reistar verða 18 nýjar öflugar hraðhleðslustöðvar fyrir rafbíla víðsvegar um landið í ár. Ellefu stöðvar verða reistar með styrk frá Orkusjóði, sem úthlutað var í nóvember 2019, og verða öflugri en flestar sem fyrir eru. Þeim til viðbótar stefnir Tesla að því að reisa ofurhleðslustöðvar á sjö stöðum nú í sumar.

Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata greinir frá þeim stöðvum sem áformað er að teknar verði í gagnið í ár samkvæmt samningi við Orkusjóð, í svari við fyrirspurn í Facebook-hópi rafbílaáhugamanna. Þær verða staðsettar í Reykjanesbæ, Keflavíkurflugvelli, Borgarnesi, Bjarkarlundi, Stykkishólmi, Hólmavík, Blönduósi, Mývatni, Egilsstöðum, Hvolsvelli og Selfossi.

Þær stöðvar verða 150kW og munu geta hlaðið tvo bíla samtímis, en ef fleiri en einn er að hlaða dreifist aflið milli bílanna. Allir rafbílar (sem á annað borð hafa hraðhleðslutengi, en það eru þeir svo til allir) munu geta hlaðið í þeim. Þær verða til viðbótar við þær 50kW stöðvar sem fyrir eru á öllum stöðunum nema Stykkishólmi, og því munu þrír geta hlaðið samtímis á þeim stöðum.

Björn Leví gefur aðeins ártöl fyrir hverja stöð, en í úttekt Viðskiptablaðsins á stöðu uppsetningarinnar í fyrra kom meðal annars fram að jarðvinna í tengslum við uppsetningu stöðvanna sé ekki fýsileg að vetri til, og því líklegt að þorri stöðvanna verði settur upp nú í sumar.

Sjö nýjar ofurstöðvar hjá Tesla í ár
Ofurhleðslustöðvar Tesla – sem aðeins bifreiðar rafbílaframleiðandans bandaríska geta notað – má nú finna á tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu með alls 6 hleðslupunkta sem veita að hámarki 120kW, og 8 stöðvar við Staðarskála, sem hver getur veitt allt að 250kW.

Til stendur að reisa slíkar stöðvar á 7 stöðum til viðbótar á næstunni, sem allar verða 250kW. Tvær verða á höfuðborgarsvæðinu en hinar á Akureyri, Egilsstöðum, Höfn, Kirkjubæjarklaustri og Hvolsvelli. Ekki liggur fyrir hversu margar stöðvar eða hleðslupunktar verða á hverjum stað, en þær verða mismargar eftir stöðum, og líklega færri á flestum stöðum en þær 8 sem má finna á Staðarskála, samkvæmt heimildum blaðsins.

Samkvæmt hleðslukorti Tesla er stefnt að því að taka þær allar í gagnið nema í miðbæ Reykjavíkur á öðrum fjórðungi þessa árs, og eiga þá allir bílar Tesla að komast hringveginn án þess að þurfa að nota aðrar stöðvar en frá framleiðandanum, að því gefnu að þær hafi ekki þungan eftirvagn eða annað sem stórlega dregur úr drægni.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er vinna við uppsetningu stöðvanna þegar langt komin, og enn stefnt að taka flestar ef ekki allar stöðvarnar í notkun fyrir fjórðungslok, þótt aðeins sé rúmur mánuður til stefnu, en náist það ekki verði það síðar á þessu ári. Þótt aðeins þessar sjö séu staðfestar enn sem komið er herma heimildir ennfremur að aðeins sé um fyrsta áfanga að ræða. Eigendur bíla sem skarta T-inu bogadregna mega því búast við enn fleiri stöðvum þegar fram líða stundir.

Nokkrar þegar komnar og 5 til viðbótar á næsta ári
Alls úthlutaði Orkusjóður styrkjum fyrir uppsetningu 43 stöðva samkvæmt tilkynningu stjórnvalda um málið 2019. Aðeins 33 staðsetningar voru hinsvegar tiltaldar í þeirri tilkynningu, og þar af var ein 50kW stöð, á Skjöldólfsstöðum.

Þegar hafa verið reistar nokkrar stöðvar, meðal annars á Akureyri, Varmahlíð og í Víðigerði, og til viðbótar verða settar upp 5 stöðvar á næsta ári, í Mosfellsbæ (sú gæti reyndar komið í ár), Djúpavogi, Ólafsvík, Búðardal, og á Ísafirði, auk þess sem á Hellu, Kirkjubæjarklaustri og í Höfn-Nesjahverfi verða þrjár stöðvar reistar á næsta ári eða síðar.

Þrjár stöðvar hafa tafist eða við þær verið hætt, á Freysnesi, í Vík og á Seyðisfirði, en þar hefur Ísorka ýmist ekki náð samningum eða ON þegar reist 50kW stöð. Þeim til viðbótar náði Tæknivit ekki að uppfylla samninga um stöðvar í Skaftafelli, á Vegamótum á Snæfellsnesi, við Geysi, Þingvelli og við Keflavíkurflugvöll.

Styrkur vegna þeirra fellur því niður, en ekki kemur fram hvort endursamið verði um uppsetningu þeirra síðar. Orkusjóður er þó sagður munu „leita leiða til að koma því fjármagni til uppbyggingar á hleðslustöðvðum“, en þær verði ekki endilega hraðhleðslustöðvar. Í samtali við Viðskiptablaðið segist Björn Leví ekki vita meira en kemur fram í svarinu, en hann viti ekki til þess að hætt hafi verið við uppsetningu stöðva á þessum stöðum.