Einhver seinkun verður á atkvæðagreiðslu í fulltrúadeild Bandaríkjaþings um tillögu John Boehner leiðtoga repúblíkana um hækkun skuldaþaksins og niðurskurð ríkisútgjalda.  Samkvæmt heimildum Wall Street Journal mun atkvæðagreiðslan þó fara fram í kvöld, eða nótt.

Bendir seinkunin til að Boehner hafi ekki tekist að fá 218 þingmenn flokks síns til að styðja tillöguna, sem myndi tryggja samþykki hennar. Samkvæmt Wall Street Journal mega aðeins 24 þingmenn repúblíkana vera á móti auka allra þingmanna demókratar til að hún verði felld. Líklegt er að flokkslínur verði ekki alveg skýrar í atkvæðagreiðslunni.

Talið er víst að verði tillagan samþykkt í fulltrúadeildinni, muni leiðtogar demókrata í öldungadeildinni leggja fram tillögu um að breyta henni, eða fella hana.