Samfylkingin varði tæplega 3.900 krónum í kosningabaráttu Alþingiskosninganna 2016 fyrir hvert atkvæði sem flokkurinn fékk í kosningunum. Á þennan mælikvarða var kosningabarátta flokksins áberandi óhagkvæmustu en flokkurinn hlaut sína verstu kosningu í sögunni og var nálægt því að detta út af þingi, endaði með 5,7% fylgi. Samfylkingin háði næst dýrustu kosningabaráttu allra flokka, en hún kostaði flokkinn 42 milljónum króna.

Dýrustu kosningabaráttuna háði Sjálfstæðisflokkurinn sem varði 43,8 miljónum króna vegna kosninganna. Þriðju dýrustu baráttuna háðu Vinstri grænir sem greiddu 37 milljónir króna vegna sinnar kosningabaráttu, síðan Viðreisn og Björt framtíð sem greiddu 27 milljónir króna hvor vegna kosninganna.

Ódýrustu kosningabaráttuna háði Framsóknarflokkurinn sem varði 15,5 milljónum króna í hana og þá Píratar sem vörðu um 20 milljónum vegna kosninganna.

Sé horft í hve útgjöld til kosningabaráttunnar skiluðu á hvert atkvæði var kosningabarátta Pírata og Framsóknarflokksins áhrifaríkust en útgjöld á hvert atkvæði námu ríflega 700 krónum. Næst kom Sjálfstæðisflokkurinn með tæplega 800 krónur á atkvæði.

Þriðju hagkvæmustu kosningabaráttuna ráku Vinstri græn með 1.200 krónur á atkvæðið. Síðan kom Viðreisn sem greiddi um 1.350 krónur á hvert atkvæðið og þar á eftir Björt framtíð varði um 2.000 krónum á atkvæðið.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér.