*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 26. september 2021 18:19

Atkvæðum fjölgaði í Norðvestur

Jöfnunarsætin fóru á flakk eftir endurtalningu í Norðvesturkjördæmi.

Jóhann Óli Eiðsson
Guðmundur Gunnarsson vaknaði sem nýr þingmaður en fer að sofa sem ekki þingmaður.
Haraldur Guðjónsson

Merkilegar breytingar urðu á niðurstöðum í Norðvesturkjördæmi við endurtalningu atkvæða. Við endurtalningu fækkaði atkvæðum greiddum Viðreisn um níu sem riðlar jöfnunarþingmönnum. Það sem meira er þá fjölgaði atkvæðum. 

Endurtalning leiddi í ljós að atkvæði til Sjálfstæðisflokks jukust um tíu og Framsóknarflokksins um fimm. Sósíalistaflokkurinn hækkaði um sjö og Frjálsi lýðræðisflokkurinn bætti við sig einu atkvæði. Fækkun Viðreisnar þýðir að Guðmundur Gunnarsson Viðreisn er ekki þingmaður lengur heldur kemur Guðbrandur Einarsson inn í Suðurkjördæmi. Vinstri græn missa mann í Suðurkjördæmi en græða á móti Orra Pál Jóhannsson í Reykjavík. Píratar missa Lenyu Rún Taha Kamin í Reykjavík en fá mann í Suðvestur á móti.

Miðflokkur fær Bergþór Ólason inn í Norðvestur á kostnað Karls Gauta Hjaltasonar í Suðvestur og þá kemur Jóhann Páll Jóhannsson inn sem jöfnunarmaður. Í hans stað dettur Rósa Björk Brynjólfsdóttir út.

Aðrir flokkar töpuðu aftur á móti atkvæðum. Vinstri græn, Píratar og Samfylking töpuðu einu atkvæði, Flokkur fólksins þremur, Miðflokkurinn fimm og Viðreisn tapaði níu atkvæðum. Það sem er síðan merkilegt er að auðum seðlum fækkaði um tólf en ógildum seðlum fjölgaði um ellefu. Talin atkvæði voru tveimur fleiri í lokalokatölunum heldur en í lokatölunum í morgun.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að eftir að talningu atkvæða lauk í morgun hafi þau verið læst inni og undir eftirliti í Borgarnesi. Kjörgögnin voru aftur á móti ekki innsigluð. 

Endurtalning mun ekki fara fram í Suðurkjördæmi en þar vantar átta atkvæði upp á að Vinstri græn nái inn kjördæmakjörnum manni. Það gæti haft áhrif jöfnunarsætin sem fylgja í kjölfarið. 

Landskjörstjórn á eftir að koma saman til að úrskurða um vafaatriði. Rétt er síðan að geta þess að á fyrsta þingfundi kemur kjörbréfanefnd þingmanna saman og úrskurðar um vafaatkvæði. Aldrei þessu vant gætu úrskurðir hennar haft áhrif og einhverjir því mætt á fyrsta þingfund sem þingmenn en þurft að snúa til baka sem venjulegir borgarar.