Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í svari sínu við fyrirspurn Þorgerðar K. Gunnarsdóttur, Sjálfstæðisflokki, á Alþingi í dag að Samfylkingin væri ekki með neinar hótanir í garð Vinstri grænna varðandi ESB-tillöguna.

Jóhanna bætti því við að það væri rétt hjá formanni VG að þingmenn ættu að fylgja sannfæringu sinni í þessu máli eins og öðrum.

Síðan sagði hún: „Mér heyrist að háttvirtur þingmaður [Þorgerður K. Gunnarsdóttir] beri mikla umhyggju fyrir áframhaldandi starfi þessarar ríkisstjórnar þannig að við skulum vona að atkvæðagreiðslan verði með þeim hætti að þessi ríkisstjórn starfi áfram."

Þessi ummæli féllu í óundirbúnum fyrirspurnartíma í upphafi þingfundar á Alþingi í dag. Jóhanna var þar að svara því hvort stjórnarslit yrðu ef ESB-tillagan yrði felld á þingi.

Óvissa um afdrif ESB-tillögu

Utanríkismálanefnd þingsins hefur afgreitt tillögu ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Búist er við því að síðari umræða um málið fari fram síðdegis.

Óvissa ríkir um afdrif málsins á þingi því nokkrir þingmenn VG hafa lýst yfir efasemdum um það.