Í vefriti fjármálaráðuneytisins sem kom út í gær kemur fram að áætlað sé að fjármagnstekjuskattur skili ríflega 30 milljörðum króna í ríkissjóð í ár.

Frá því fjármagnstekjuskattur var tekinn upp hér á landi árið 1997 hafa tekjur ríkissjóðs af þeim skattstofni farið vaxandi. Árið 1997 var fjármagnstekjuskatturinn 1,7% af skatttekjum ríkissjóðs en var árið 2007 rúmlega 7%.

Fjármagnstekjuskattur leggst fyrst og fremst á einstaklinga, en einnig á lögaðila sem eru undanþegnir almennri skattskyldu og á ríkissjóð sjálfan. Stofn fjármagnstekjuskattsins eru hvers kyns eignatekjur, svo sem vaxtatekjur, arður, leigutekjur og söluhagnaður.

Árið 1997 voru vaxtatekjur tæplega þriðjungur skattstofnsins, en eru í dag um fimmtungur hans. Í vefriti fjármálaráðuneytisins segir að það sé einkum mikil aukning söluhagnaðar af hlutabréfum sem hefur breytt mynstrinu undanfarin ár.

Sjá nánar vefrit fjármálaráðuneytisins .